Allir á völlinn!
Átta liða úrslitin í úrrslitakeppni 4. deildar hefjast í dag (laugardag) og á Sauðárkróksvelli mætast lið Tindastóls og Hvíta riddarans og hefst leikurinn kl. 14:00 í dag. Hvíti riddarinn rekur ættir sínar í Mosfellsbæinn og fór liðið í gegnum A-riðil án þess að tapa leik. Stólarnir töpuðu einum og gerði tvö jafntefli líkt og lið andstæðinganna þannig að það er fjallgrimm vissa fyrir því að það verður hart barist í einvígi liðanna. Donni þjálfari hvetur alla sem vettlingi geta valdið að mæta á völlinn og styðja við bakið á Stólunum.
„Strákarnir hafa unnið alveg gríðarlega vel og hafa lagt mjög mikla vinnu á sig til þess að komast á þennan stað,“ segir Donni í skilaboðum til stuðningsmanna Tindastóls. „Þeir hafa bætt sig jafnt og þétt í gegnum veturinn, og svo sumarið og mér finnst vera tilefni fyrir okkur öll til að vera stolt af þeim. Nú þurfum við á ykkur öllum að halda til þess að hjálpast að við að komast upp um deild.
Við höfum aftur og aftur séð hversu mikilvægt er að fá góðan stuðning - þið munið kannski eftir körfunni í fyrra Þetta verður án efa spennandi einvígi og þarna berjast tvö lið sem hafa það að markmiði að fara upp um deild.
Ég bið því ykkur að mæta sem hafið möguleika á því og endilega taka með sér nokkra aðra vini. Hrópa jákvæð stuðningsorð úr stúkunni og hvetja strákana okkar áfram.“
Donni segist hlakka til að sjá stuðningsmenn í dag kl 14.00 í stúkunni góðu.
Í átta liða úrslitum er spilað heima og að heiman og liðið sem nær betri árangri fer áfram í fjögurra liða úrslit og sigurvegararnir þar tryggja sér sæti í 3. deild. Síðari leikur liðanna verður við malbiksstöðina á Varmá næstkomandi þriðjudag kl. 18:00. Liðin í úrsltiakeppninni eru jöfn og sterk og þar verða engir leikir auðveldir. Stuðningur af pöllunum er því mikilvægur. Allir á völlinn og áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.