Álfheiður fékk undirskriftarlista til stuðnings HSB í morgun
Undirskriftalistarnir þar sem miklum niðurskurði á framlögum Ríkisins til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi er mótmælt og legið hafa frammi síðastliðnar vikur í Austur Húnavatnssýslu, voru afhentir Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra nú í morgun.
Hópurinn sem staðið hefur að söfnun undirskrifta á þessa lista, hittu ráðherrann kl. 11:00 í morgun í Heilbrigðisráðuneytinu og afhentu henni listana sem innihalda tæplega 700 nöfn. Að sögn Bóthildar Halldórsdóttur starfsmanns HSB og eins af upphafsmönnum undirskriftalistanna, lofaði ráðherra því að skoða málið betur en sagði jafnframt að ekki væri skorið mest niður hjá HSB. –Þessu er ég ekki sammála. Það kemur fram að skera eigi niður um 10% en verður í raun milli 11 og 13% samkvæmt útreikningum HSB, segir Bóthildur. Ásbjörn Óttarsson var eini þingmaður kjördæmisins sem mætti til að vera viðstaddur afhendingu listanna en allir þingmenn kjördæmisins voru boðaðir og var Bóthildur ekki ánægð með frammistöðu þingmannanna. –Ég hélt þeir ættu að vinna fyrir fólkið í kjördæminu þar sem atkvæðin þeirra liggja, segir Bóthildur ákveðin en bætti við að Einar K. og Gunnar Bragi hefðu látið vita að þeir kæmust ekki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.