Ákveðin vonbrigði – enn er tækifæri til úrbóta
Starf sveitarstjórnar er yfirgripsmikið og mikilvægt að sem flestir íbúar og fulltrúar þeirra leggi þar hönd á plóginn. Karlar jafnt sem konur, meirihluti sem og minnihluti, íbúar sveita og þéttbýlis í Skagafirði þurfa að eiga fulltrúa í þeim vinnuferlum sem síðan leiða til ákvarðana sveitarstjórnar. Þá er ekki síður mikilvægt að ákvörðunum sveitarstjórnar sé vel og skipulega framfylgt með góðri verkstjórn sveitarstjóra.
Jafnrétti
Þessi grein er send til birtingar 19. júní á kvenréttindadaginn, þegar við minnumst þess merkisatburðar að íslenskar konur fengu kosningarétt og kjörgengi. Á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar var ákveðið að eingöngu karlar skipi Atvinnu- og ferðamálanefnd og Stjórn Skagafjarðarveitna annað kjörtímabilið í röð. Landbúnaðarnefnd, Skipulags og bygginganefnd sem og Byggðaráð eru nú alfarið skipaðar körlum en Menningar- og kynningarnefnd og Umhverfis- og samgöngunefnd eru einungis skipaðar konum.
Með þessu móti er hætt við að það verði kynjaslagsíða á mörgum ákvörðunum nefnda. Í ljósi þeirrar umræðu og upplýsinga sem nú liggja fyrir um að stjórnunarhættir séu betri þar sem bæði kyn koma að málum er þetta ekki nógu gott – ekki síst í ljósi lagabreytingar þann 4. 3. 2010, sem þingmenn allra flokka stóðu að. Þar er kveðið á um að gæta kynjajafnréttis í skipan stjórna hlutafélaga. Þessu ákvæði ætti sveitarstjórn auðvitað að framfylgja. Ég skora því á sveitarstjórn að endurskoða alla vega skipan í stjórnir hlutafélaga og helst einnig skipan í ráð og nefndir líka, útfrá almennum jafnréttissjónarmiðum og gæta þess að farið sé að lögum í sveitarstjórnarstarfinu.
Vinnulag
Eitt brýnasta mál nýs meirihluta er því að ráða reyndan og hæfan sveitarstjóra. Það er gífurlega aðkallandi í ljósi þess að allir meðlimir nýja meirihlutans utan einn, eru óreyndir sem sveitarstjórnarmenn. Þó nýkjörinn forseti sveitarstjórnar sé fundavanur er hann óvanur að bera ábyrgð á sveitarstjórnarfundi. Við þessar aðstæður er hætt við að málatilbúnaður sé viðvaningslegur, ákvarðanir illa undirbúnar og framkvæmd óljós, að ekki sé minnst á að forseti liggi undir ámæli um sína starfshætti. Þetta spillir vinnumóralnum í sveitarstjórn.
Því betur sem mál eru undirbúin í nefnd, því líklegra er að sveitarstjórn taki farsælar ákvarðanir. Það hlýtur því að vera mikilvægt að sjónarmið allra flokka, sem starfa í sveitarstjórn komi fram í nefndarstarfinu frekar en í deilum á sveitarstjórnarfundum. Í ljósi yfirlýsingar núverandi meirihluta um áframhaldandi gott samstarf eru það vonbrigði að ekki skuli hafa verið gengið strax frá þátttöku allra flokka í sveitarstjórn í nefndum.
Öflugur framkvæmdastjóri sveitarstjórnar er sú stoð og stytta sem nýr meirihluti þarf svo nauðsynlega í sínu starfi. Um allt land eru þeir flokkar sem lofuðu faglegri ráðningu sveitarstjóra nú að auglýsa og/eða ganga frá ráðningu framkvæmdastjóra fyrir sitt sveitarfélag – en hvað er að gerast hér í Skagafirði? Við vitum það ekki, en vonandi er nýr meirihluti samstíga í þessu máli þannig að engar tafir verði á ráðningu góðs verkstjóra til að ganga í verkin með því góða starfsfólki, sem Sveitarfélagið Skagafjörður hefur á að skipa.
Guðrún Helgadóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.