Ágætis veður í kortunum út vikuna
Það var frekar andstyggilegt sumarveðrið á Króknum í gær, rok og rigning en það kombó hefur blessunarlega verið af skornum skammti í sumar. Feykir sagði frá því á sunnudag að einhver bilun væri hjá Veðurstofunni í spám tengdum Alexandersflugvelli við Sauðárkrók því þar vantaði stundum hitaspár og þess vegna mátti sjá að þar var gert ráð fyrir snjókomu í kortunum. Það skorti reyndar ekki mörg hitastig upp á í gær að vitlausa spáin gengi eftir og þegar rigningarbakkarnir létu undan síga í gærkvöldi voru fjallstoppar víðast hvar fagurhvítir í Skagafirði.
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan og norðaustan 5-13 í dag, léttskýjuðu að mestu og hita 8 til 16 stig, svalast á annesjum. Meira skýjað á morgun og heldur svalara. Það hlýnar svo enn þegar nær dregur helginni en Veðurstofan virðist gera ráð fyrir linnulítilli úrkomu frá föstudagskvöldi og fram á sunnudag en litlum vindhraða.
Þess má svo til „gamans“ geta að í spánni er reiknað með snjókomu á Alexandersflugvelli um og upp úr hádegi á laugardaginn (og reyndar oftar í vikunni) þó svo að á næstu veðurstöðvum sé hitinn um 15 gráður. Eða eins og sagði í einu áramótaskaupinu í gamla daga: Þetta er náttúrulega bilun...
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.