Af blautu sumri | Hjalti Þórðarson skrifar

Hjalti Þórðarson.MYND AÐSEND
Hjalti Þórðarson.MYND AÐSEND

Sumarið (júní-ágúst) 2024 var sérstakt og einkenndist fyrst og fremst af bleytu, sólarleysi og kulda, meiri bleytu og að lokum enn meiri bleytu. En hvernig er samanburðurinn við önnur sumur á okkar svæði? Taka skal fram að úrkoma á Norðurlandi vestra er almennt mjög lítil og á ársgrundvelli víða á láglendi um og undir 500mm og undir 400mm þar sem þurrast er og með því þurrasta hér á landi. Nokkuð meiri úrkoma er í útsveitum og svo víða mun meiri á hálendinu.

Ríkjandi vindáttir í sumar voru að mestu einhverjar vestlægar áttir enda lægðirnar á stöðugri hraðferð á hafinu milli Íslands og Grænlands. Hefðbundnir sumardagar, með hæð yfir Grænlandi og rólegum lægðagangi sunnan og síðan suðaustan við landið með hægviðri og hafgolu eftir hádegi, voru teljandi á fingrum annarrar handar. Í öllum mælitölum sáust merki þessa stöðuga lægðagangs, m.a. lægsti mældi loftþrýstingur að sumarlagi sem sögur fara af.

Annað sem einkenndi lægðaganginn var gríðarleg úrkoma og metfjöldi úrkomudaga sem herjaði ekki hvað síst yst á Tröllskaga og inn með honum að vestanverðu. Skriðuföll og vatnsgangur voru víða með einhverjum skemmdum á jarðvegi og mannvirkjum. Sveitir sem alla jafna eru í úrkomuskugga voru í allt sumar ámegin við úrkomuákefðina.

 

 

 

Tölurnar fyrir sumarið eru sláandi. Allir mánuðir langt yfir meðallagi og samanlögð úrkoma ótrúlega mikil fyrir vatnshrætt fólk. Á veðurstöðvum á og við Tröllaskaga er þetta blautasta sumar sem um getur samkvæmt öllum mælingum. Fyrra met á Sauðanesvita var frá 2022 (451mm), Dalsmynni frá 1992 (194mm, meira en 70% í júní) og Litlu-Hlíð frá 2014 (163mm, meira en 50% í júlí). Samkvæmt gögnum frá Hólum í Hjaltadal og Skriðulandi í Kolbeinsdal mældist aldrei eins mikil sumarúrkoma árin 1936-90 eins og í Dalsmynni 2024. Þar mældist mest úrkoma 1983 (237mm), 1936 (226mm) og 1961 (191mm), þau sumur hvert öðru leiðinlegra.

Annað sem vekur athygli er að samanlögð úrkoma sumrin 2022-24 er mesta úrkoma þriggja samliggjandi sumra á svæðinu í a.m.k. tæp 90 ár og nánast örugglega mikið lengur. Ekkert skrýtið að jarðvegur sé orðinn gegnsósa af vatni. Það er ekki síður sláandi og mætti halda að skaparinn hafi ákveðið að koma fólki duglega niður á jörðina eftir góðviðrissumarið 2021, bæði kæla og bleyta vel í. Ef tekin eru saman sumrin 2022-24 (níu mánuðir) þá voru átta mánuðir með úrkomu yfir meðallagi og flestir langt yfir. Hiti var undir meðallagi sjö af þessum níu mánuðum og sumir þeirra langt undir. Ekki fallegar einkunnir sem þessi þrjú sumur fá.

Þrátt fyrir að greinarskrifari sé hvorki spámannlega vaxinn né alla jafna gáfulegur á svipinn ætlar hann að spá því að annað eins sumar og þetta komi ekki í bráð og jafnvel aldrei. Þess ber einnig að geta að Farsæll hefur ekki verið heyjaður síðastliðin sumur og við það verður ekki unað framvegis.

Hjalti Þórðarson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir