Ætlar þú að kjósa?
Í fyrsta sinn fær íslenska þjóðin að setja sér stjórnarskrá. Alþingi hefur vísað þessum rétti til þjóðarinnar. Ákvörðun Alþingis er augljóslega tilraun til að rétta fram hönd til sátta í samfélaginu. Það er því mikilvægt að þjóðin fagni þessu tilboði og fjölmenni til þess að velja fulltrúa til að tala sínu máli við gerð þess sáttmála sem stjórnarskrá er. Það er nefnilega þannig að stjórnarskráin er sáttmáli þjóðarinnar. Sáttmáli um þau gildi sem hún vill hafa í heiðri og það þjóðskipulag sem hún vill byggja á.
En stjórnarskrá er miklu meira, hún er líka stjórnlög landsins. Þar skilyrðir þjóðin það vald sem hún framselur til stjórnmálamanna í kosningum. Stjórnlagaþingið er því nauðsynlegur vettvangur og hárréttur byrjunarreitur til að reyna að skapa frið hjá þjóðinni og horfa til nýrrar framtíðar.
Til þessa þings veljast vonandi einstaklingar sem koma víða að úr samfélaginu. Einstaklingar sem ganga ekki að þessu borði með heitingar eða kosningaloforð heldur einbeittan vilja til að skapa hér sátt. Stjórnlagaþing heppnast ekki nema til þess komi einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn í menntun, starfsreynslu og búsetu. Það er raunveruleg hætta á því að enginn frambjóðandi af landsbyggðinni nái kjöri á Stjórnlagaþing. Fari svo er hætta á að sú sátt sem stefnt er að verði markleysa ein. Ég býð mig fram til þessara verka vegna þess að ég trúi því að þekking mín og fjölbreytt reynsla úr samfélaginu muni nýtast.
Með kveðju úr Grundarfirði,
Ingi Hans Jónsson – 3392
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.