Aðventukveðja frá Húsfreyjunum á Vatnsnesi
Húsfreyjurnar á Vatnsnesi er félagsskapur kvenna sem stendur fyrir margskonar veisluhöldum, en þekktust er sennilega hátíðin Bjartar nætur - Fjöruhlaðborð um Jónsmessu. Hróður hátíðarinnar hefur borist um land allt og koma gestir víðsvegar að.
Undanfarin ár hefur sviðamessan í október þó unnið talsvert á, og á þessu ári nutu nánast jafn margir kræsinga sviðamessunnar og sóttu Bjartar nætur. Sviðamessukvöldin urðu þrjú og var uppselt á þau öll, en vegna mikils hvassviðris skiluðu ekki allir gestir sér fyrsta kvöldið.
Félag Húsfreyjanna hefur í gegnum árin styrkt einstaklinga, fjölskyldur og stofnanir í Húnaþingi vestra. Allur ágóði sviðamessanna er gefinn. Svo er öðrum tekjum ráðstafað í styrki, þegar þörfin knýr dyra.
Það sem af er ári styrktu Húsfreyjurnar ýmis málefni. Þar á meðal er Foreldrafélag Grunnskóla Húnaþings vestra, Tónlistarskólinn, einnig hafa nokkrir einstaklingar/fjölskyldur fengið framlag Húsfreyjanna. Það er von Húsfreyjanna að peningagjafirnar komi að góðum nótum.
Starfsemi Húsfreyjanna hefur verið með venjubundnu sniði á árinu sem er að líða. Bjartar nætur í júní, kaffihlaðborð um Verslunarmannahelgina, réttarkaffi og sviðamessur. Hamarsbúð, sem Húsfreyjurnar reka, hefur verið leigð út til fundarhalda og mannfagnaða, með eða án veitinga.
Hópur ungmenna á vegum Veraldarvina heimsótti Hamarsbúðina og lét penslana valsa um og bar viðarvörn á húsið. Ferðamönnum um Vatnsnes finnst tilvalið að stansa við Hamarsbúð, anda að sér fersku sjávarloftinu, skoða trönurnar hans Bangsa eða tjalda sunnan við húsið.
Með þessari tilkynningu óska Húsfreyjurnar á Vatnsnesi ykkur góðrar aðventutíðar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.