Á sinni fyrstu landsliðsæfingu - Íþróttagarpurinn Margrét Rún Stefánsdóttir
Margrét Rún Stefánsdóttir á Sauðárkróki er mikið markmannsefni en nýlega var hún kölluð í æfingahóp U15 landsliðsins og er væntanlega að sprikla þar þegar þetta blað kemur út. Hún er af árgangi 2005 og því aðeins 14 ára gömul. Þrátt fyrir ungan aldur var Margréti treyst fyrir því að vera varamarkmaður hjá kvennaliði Tindastóls í Inkassó deildinni, seinni parts sumars, og fékk að spila nokkrar mínútur í leik gegn ÍR undir lok tímabils. Margrét Rún er dóttir Einarínu Einarsdóttur og Stefáns Öxndal Reynissonar og er Íþróttagarpur Feykis að þessu sinni.
Íþróttagrein: -Fótbolti
Íþróttafélag: -Tindastóll
Helstu íþróttaafrek: -Ég hef lent í öðru sæti á Rey Cup með mínu liði, valin á afreksæfingar KSÍ á Norðurlandi og nú U15.
Skemmtilegasta augnablikið: -Við vorum að spila á móti HK á Rey Cup og ég varði allan leikinn á fullu en við vorum að tapa en náðum eftir hálfleik að skora þannig að staðan var 1-1 og leikurinn endaði í vítaspyrnukeppni. Ég varði og við það brutust út mikil fagnaðarlæti og það er sérstaklega minnistætt að við stelpurnar hlupum allar á móti hverri annarri og fögnuðum gríðarlega… Geggjuð tilfinning því þetta þýddi að við spiluðum um 1. sætið á mótinu.
Neyðarlegasta atvikið: -Neyðarlegasta atvikið gerðist þegar við spiluðum á móti KA á fysta árinu mínu í 5 flokki, ég ætlaði að taka bolta niðri en hann fór í gegnum klofið á mér.. fastur bolti niðri en samt mjög neyðarlegt.
Einhver sérviska eða hjátrú? -Ég spila alltaf tölvuleikinn Fifa fyrir leiki.
Uppáhalds íþróttamaður? -Megan Rapino hjá USA, Sari Van Veenendal hjá Hollandi.
Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Taka Megan Rapino á einn á einn í körfubolta.
Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Ég myndi lýsa þeirri rimmu í gríni.
Lífsmottó: - Mitt mottó er: „I never lose, I either win or learn“.
Helsta fyrirmynd í lífinu: -Ég lít mikið upp til Megan Rapino vegna þess hve sterkur karakter hún er, hún segir það sem meinar og stendur við það. En mamma mín er mín sterkasta fyrirmynd vegna þess að hún hefur farið ótroðnar slóðir í sínu lífi, hefur gert margt og mikið bæði í fótboltanum og í öðru og henni er sama hvað öðrum finnst um hana hún stendur ávallt með sjálfri sér og þannig vill ég líka lifa lífinu.
Hvað er verið að gera þessa dagana? -Bara æfa á fullu og leika í Árshátíð unglingastigs Árskóla.
Hvað er framundan? -Fara á fyrstu landsliðsæfingu mína með U15 í næstu viku. Einnig spilum við leik þann 19. des. sem afrekslið KSÍ á Norðurlandi á móti meistaraflokki kvk. Völsungs.
Áður birst í 47. tbl. Feykis 2019
Es. Lúðvík Gunnarsson, landsliðsþjálfari U15 kvenna, hefur valið hóp fyrir úrtaksæfingar 27.-29. janúar og er Margrét Rún þar á meðal 28 annarra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.