Villikettir og skúrkar í Grímsstaðamálinu
Þjóðin hefur fylgst mjög náið með umræðunni um Grímsstaðamálið síðustu daga. Það hefur engum dulist ágreiningur ráðherranna Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar í þessu máli. Ég studdi ákvörðun Ögmundar á sínum tíma í ríkisstjórn og er áfram þeirrar skoðunar að það eigi að stöðva þessi fjárfestingaráform Kínverjanna á Grímsstöðum í fæðingu enda samræmast þau engan vegin stefnu og hugmyndafræði VG. Þá hefur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir lýst opinberlega andstöðu við áform Kínverjans á Grímstöðum.
Hvarvetna þar sem ég hef farið um landið heyri ég þá sömu skoðun bæði hjá fyrrverandi og núverandi Vg félögum sem og hjá öllum almenningi.
Í viðtali við ríkisútvarpið eftir ríkisstjórnarfund sl. þriðjudag spyr fréttamaðurinn ráðherra út í Núbó og Grímsstaða umræðuna síðustu daga: Steingrímur segir það af og frá að hann sé að bakka í málinu eða einangrast í eigin flokki.
„Ég er bara nákvæmlega að leggja til það sem mér finnst skynsamlegt í þessu máli. Ég gef nákvæmlega ekkert fyrir þessa vitleysisumræðu sem búin er að vera í gangi undanfarna daga þar sem verið er að reyna að draga upp hetjur og skúrka.“
Fyrr meir gaf forysta ríkisstjórnarinnar ákveðnum armi VG nafnið Villikettir. Nú hefur hinn helmingurinn einnig fengið nafn frá sömu forystu og kallast Skúrkar.
Hvers vegna þessi leynd í kringum Núbó og Grímsstaðamálið
Efnahags og viðskiptaráðherra lagði fyrir ríkisstjórn minnisblað 12.06 sl. þar sem greint var frá því að ráðuneytið hefði veitt Zongkung Europe ehf. undanþágu frá því ákvæði í lögum að minnst helmingur stjórnarmanna félags skuli vera búsettir hér á landi .
"Eftir yfirferð yfir málið var það niðurstaða ráðuneytisins að veita umræddu félagi undanþágu en þess var sérstaklega getið að við afgreiðslu málsins hefði verið tekið tillit til þess að framkvæmdastjóri félagsins er íslenskur" segir í niðurlagi minnisblaðs ráðuneytisins.
Með þeirri undanþágu ráðuneytisins var rutt úr vegi hindrunum fyrir kínversku fyrirtækin að stofna nýtt fyrirtæki hér á landi um áform sín á Grímsstöðum á Fjöllum. Skírskotað er til þjóðernis framkvæmdastjórans. Nú vita menn að framkvæmdastjórar þurfa ekki að vera eilífir í starfi þó þeir séu íslenskir og vinni fyrir Kínverja.
Það lýsir í nokkru baksviði þessa máls að undanþágan sem efnahags- og viðskiptaráðherra veitti í svo mjög umdeildu máli skuli afgreidd frá ríkisstjórn og það í ágreiningi án þess að greina frá því á fjölmiðlayfirliti ríkisstjórnarfunda eða opinbera það á annan hátt.
Hvers vegna er þessi feluleikur?
Málið tekið af Ögmundi
Minnisblað þetta frá 12. júní sl. til ríkisstjórnarinnar sem birtist á vefsíðu Mbl. sl. þriðjudag er um margt athyglisvert. Ekki aðeins vegna þess að málið í heild sinni var tekið af innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni vegna andstöðu hans og fært til efnahags og viðskiptaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, heldur og fyrir það hversu tíunduð eru vönduð vinnubrögð efnahagsráðneytisins við þá ákvörðun að heimila tveim kínverskum fyrirtækjum að stofna einkahlutafélag hér á landi: „Ráðuneytið tók erindið til ítarlegrar skoðunar m.a. út frá því hvort að rétt væri að skilyrða undanþáguna með einhverjum hætti. t.d. þannig að einn stjórnarmanna yrði að vera búsettur á Íslandi“.
Nú vissi ég að innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónasson hafði á sínum tíma aflað margvíslegra gagna um hin kínversku fyrirtæki áður en hann hafnaði að veita undanþáguna til kaupa á Grímsstaðajörðinni. Þeirrar vinnu er hinsvegar hvergi getið í umræddu minnisblaði efnahags og viðskiptaráðherra, sem er reyndar ósköp rýrt efnislega.
Ágreiningi sparkað í horn
Grímsstaðamálinu var sparkað í horn á síðasta ríkisstjórnarfundi með því að skipa í það sérstaka ráðherranefnd en leyfið og undanþágan sem efnahags og viðskiptaráðuneytið veitti Kínverjunum hefur ekki verið afturkallað, sem átti að gera. Segir það sína sögu um stöðu málsins í ríkisstjórn.
Það að setja þetta mál nú eftir um tveggja ára feril í sérstaka ráðherranefnd gæti þýtt að slá eigi aðeins á hina hörðu gagnrýni og "vitleysisumræðuna" og jafnvel frysta endanlega afgreiðslu fram yfir næstu kosningar. Enda er vinna ráðherranefndarinnar ekki tímasett.
Að mínu mati á að afturkalla nú þegar leyfið sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið gaf Kínverjanum til að stofna einkahlutafélag hér á landi um áform sín á Grímstöðum á Fjöllum.
Jón Bjarnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.