Verkefni stjórnlagaþings

Til stjórnlagaþings er stofnað vegna nauðsynjar á endurskoðun á grundvelli íslenska stjórnkerfisins í kjölfar efnahagshrunsins í október 2008. Verkefni stjórnlagaþings eru því mikilvæg. Í lögum um stjórnlagaþing segir að það skuli sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi atriði: 

  1. 1.      Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
  2. 2.      Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
  3. 3.      Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
  4. 4.      Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
  5. 5.      Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
  6. 6.      Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
  7. 7.      Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
  8. 8.     Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
Þingið getur tekið ákvörðun um að taka til umfjöllunar fleiri atriði. Það ætti þingið helst ekki að gera. Mikilvægt er að stjórnlagaþingið, sem er ráðgjafarþing, einbeiti sér að þeim viðfangsefnum sem Alþingi hefur falið því að fjalla sérstaklega um. Þetta eru atriði sem eru gríðarlega mikilvæg og þurfa vandaða umræðu á starfstíma þingsins (2 - 4 mánuðir). 

Mín skoðun á verkefnum stjórnlagaþings er eftirfarandi:

  1. 1.    Undirstaða stjórnskipunarinnar á að vera að allt vald komi frá þjóðinni.  Auka þarf  lýðræði í stað flokksræðis. Helstu grunnhugtök stjórnarskrárinnar eiga að vera:  Frelsi – Jafnrétti – Lýðræði.

 

  1. 2.     Aðskilja á framkvæmdavald og löggjafarvald með beinni kosningu æðsta handhafa framkvæmdavalds (forseta) og persónukjöri þingmanna.  Meira lýðræði er að kjósa bæði æðsta handhafa framkvæmdavalds og til Alþingis en eingöngu til Alþingis. Með aðskilnaði framkvæmdavalds og löggjafarvalds yrði eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdavaldinu virkara og Alþingi myndi styrkjast sem stofnun.

 

  1. 3.    Sameina á embætti forsætisráðherra og forseta í embætti forseta Íslands og gera hann ábyrgan fyrir framkvæmdavaldi (ríkisstjórn). Rök fyrir því að gera forseta ábyrgan fyrir framkvæmdavaldinu er ákveðnari forysta og skýrari ábyrgð.  

 

  1. 4.    Tryggja þarf sjálfstæði dómstóla í stjórnarskrá.
     

 

  1. 5.    Kosningar til Alþingis eiga að byggjast á persónukjöri og kjördæmaskipan á að sameina bæði landshagsmuni og svæðahagsmuni.  

 

  1. 6.    Stjórnarskrárákvæði þarf um þjóðaratkvæðagreiðslur og framkvæmd þeirra.

 

  1. 7.    Meðferð utanríkismála á að vera á forræði Alþingis en framkvæmd hjá ríkisstjórn.

 

  1. 8.    Umhverfisverndarákvæði þarf sem fjallar um sjálfbæra þróun, almannarétt og rétt almennings til heilnæms umhverfis, og umgengni við náttúru og um vernd villtra dýrastofna. Tryggja á að náttúruauðlindir Íslands séu í eigu íslensku þjóðarinnar og að þær séu nýttar til hagsbóta þjóðarinnar.  

  

Höfundur er lögfræðingur og frambjóðandi til stjórnlagaþings – 8914.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir