Verður ekki keppt í parís í París? | Leiðari 03/24
Íþróttir hafa merkilega mikil áhrif á líf okkar mannfólksins. Kannski ekki allra en ótrúlega margra. Okkur dreymir um sigra, vera partur af hópi, fjölskyldu, þar sem draumarnir rætast. Þeir sem þykjast ekki láta íþróttir hafa áhrif á líf sitt prísa sig sæla, hlæja jafnvel að þeim sem ganga dauflega til móts við nýja viku eftir erfiða helgi í boltanum, langstökki án atrennu eða pílu. Þeir eru ekki alveg að fatta þetta.
Það er hins vegar bara einn sigur-vegari og því margir sem þurfa að þola að tapa. Það er að sjálfsögðu misjafnt hvernig menn tækla svona alvarlegt mótlæti í lífinu. Þannig hefur leiðaraskrifari heyrt um konur sem hafa þurft að hughreysta þögula eiginmenn í kjölfar tapleikja hjá liði Tindastóls. Menn sem hafa þá ekki séð margt bjart framundan og helst á því að best væri að skríða undir sæng um leið og heim af leik er komið. Svo eru það hinir sem þurfa aðeins að tappa af frústreringunni, springa eins og flugeldar á gamlárskvöldi að leik loknum og leita síðan huggunar í opnum faðmi samfélagsmiðlanna – eða einhverju öðru.
Svona getur lífið nú verið erfitt.
Það er því ekki laust við að það sé pínu kjökrað nú í janúarmánuði. Lið Tindastóls ekki að standa undir væntingum í karlakörfunni, Júnæted ekki alveg meðetta og svo eru strák-arnir okkar allra, íslenska handboltalandsliðið, ekki beinlínis að gera gott mót í Þýskalandi. Sem við gátum auðvitað sagt okkur fyrir því væntingarnar voru miklar, við næstum best í heimi, allir brattir og bein leið greið á Ólympíuleikana í París.
Og gamlar lummur gera vart við sig. Af hverju ætli mark-menn andstæðinganna séu alltaf í stuði þegar þeir mæta Íslandi? Engum virðist detta í hug að það sé vegna þess að skotin séu bara svona léleg.
En ef við horfum á björtu hliðarnar þá gæti kjökrið okkar mögulega orðið svo mikið að við Íslendingar sláum í það minnsta Íslandsmet í gráti og gnístran tanna. Þá værum við öll orðnir meistarar og hvað er nú betra en að vera meistari?
Óli Arnar Brynjarsson
ritstjóri Feykis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.