Veljum heiðarlegan og sannan leiðtoga
Í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi gefst kjósendum tækifæri til að velja öfluga konu sem leiðtoga. Ólína Þorvarðardóttir hefur sýnt og sannað að hún vinnur fyrir landsbyggðina og kjördæmi sitt. Hún hafði ekki starfað lengi sem þingmaður þegar hún fór að láta að sér kveða í sjávarútvegsmálum og hefur verið einn helsti sérfræðingur á þingi í þeim málaflokki.
Þessi ötula þingkona hefur þann fágæta eiginleika að kynna sér vel og rækilega þau mál sem hún fjallar um og það er án efa einn helsti styrkur hennar sem þingmanns. Þeir eru fáir, ef einhverjir, sem standast henni snúning í glímunni við oft óbilgjörn hagsmunaöfl sem fara mikinn í áróðri sínum til þess að halda áfram að einoka sameiginlega þjóðareign okkar allra.
Í samgöngumálum eiga Vestfirðingar hauk í horni – enda barðist Ólína mjög fyrir því að Dýrafjarðagöngum yrði flýtt, eftir að þeim hafði verið skákað aftast í forgangsröðun jarðgangaframkvæmda. Þá hefur hún beitt sér af festu fyrir bættum samgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum og víðar í kjördæminu, með þeim árangri að þar hefur nú verið flýtt fjölmörgum framkvæmdum. Allir Vestfirðingar, og við hin sem njótum Vestfjarða, gerum okkur grein fyrir mikilvægi góðra samgangna þar – bæði hvað varðar lífsgæði Vestfirðinga og ekki síður öryggi.
Ég er svo lánsöm að hafa unnið með Ólínu að ýmsum verkefnum. Ósérhlífnari og duglegri manneskja er vandfundin. Þar fer kona sem ber hag almennings fyrir brjósti, ekki síst þeirra sem minna mega sín. Það er góður og því miður alltof vandfundinn eiginleiki þingmanna sem oftar en ekki velja eigin hagsmuni, eða vina sinna og ættingja, ofar hagsmunum kjósenda sinna.
Ég hvet kjósendur í kjördæminu til þess að gefa Ólínu Þorvarðardóttur tækifæri til að leiða lista Samfylkingarinnar næsta kjörtímabil. Það tækifæri felur ekki í sér mikla áhættu en þeim mun meiri möguleika. Það fæli í sér að í brúna kæmi sterk og öflug kona sem berst fyrir heildina og þá sem minna mega sín. Réttsýn og heiðarleg kona sem er jafnaðarmaður af lífi og sál.
Ragnheiður Davíðsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.