Veldur hver á heldur – sögulegt verkefni

Ríkisstjórn Íslands stendur nú á tímamótum. Breytingar hafa verið gerðar á verkaskiptingu og ráðherraskipan sem ætlað er að styrkja stjórnina og efla hana í viðureign við verkefnin framundan. Á slíkum tímamótum er viðeigandi að líta sem snöggvast um öxl og síðan fram á veg til þeirra verkefna sem enn bíða – taka veður og áttir, eins og sagt var í gamla daga.

 

Mikið hefur áunnist

Þegar við nú lítum yfir farinn veg, í gegnum móðu og mistur óagaðrar stjórnmálaumræðu, moldviðri dægurþrefs og hagsmunabaráttu,  má segja að við blasi ótrúleg sýn. Við sjáum landið rísa í efnahagslífinu og jákvæð teikn á lofti um breytingar til batnaðar fyrir þjóðarbúið: Lækkun verðbólgu, minnkandi atvinnuleysi, hagvöxt, aukinn kaupmátt. Kannanir á líðan fólks sýna að bjartsýni og ánægja er að aukast í samfélaginu – og fátt getur verið dýrmætari uppskera fyrir stjórnvöld en vaxandi bjartsýni og aukin ánægja fólksins í landinu.

Árangur stjórnvalda eftir hrunið er hafinn yfir hávaða stjórnmálaumræðunnar og hrakspár pólitískra óvina. En verkinu er ekki lokið. Nú er ríkari ástæða en nokkru sinni til að samstilla kraftana og leggja til fangbragða við verkefnin sem bíða. Þau eru mörg og þörf. Þau varða ekki síst jöfnun lífsgæða í landinu, ekki aðeins milli stétta og einstaklinga, heldur einnig milli landshlutanna. Þau velta á samgönguverkefnum, sameiningu sveitarfélaga, verkefnatilflutningi … og ekki síst …  orku- og  auðlindastefnu. Aldrei er mikilvægara en á erfiðum tímum að þjóðin haldi fast um auðlindir sínar, hugi vel að nýtingu þeirra og ekki síður því hvernig arðsemi auðlindanna kemur þjóðarbúinu best.  

 

Átökin um auðlindirnar

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur heitið því í stjórnarsáttmála að mótuð verði heildstæð orku- og auðlindastefna sem ætlað er að styðja við fjölbreytt atvinnulíf og tryggja að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna. Enn fremur að samfélagleg hagkvæmni sé höfð að leiðarljósi við ráðstöfun þeirra og nýtingu. Þetta á ekki síst við um fiskveiðiauðlindina  sem styr hefur staðið um vegna þess hróplega óréttlætis sem kvótakerfið hefur leitt yfir byggðir landsins. Ríkisstjórnin á þess nú kost að leiðrétta þann órétt. Hún hefur heitið því gera breytingar sem tryggja að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni renni í þjóðarbúið, til síns rétta eiganda og nýtist til samfélagslegra verkefna; að fiskveiðar og útgerð verði til þess að efla og viðhalda atvinnu í byggðum landsins; að jafnræðis og mannréttinda sé gætt við úthlutun aflaheimilda þannig að nýliðun geti átt sér stað í greininni og menn njóti atvinnufrelsis í reynd.

Átök undanfarinna ára um fiskveiðistjórnarkerfið hafa leitt okkur fyrir sjónir að ekki má dragast lengur að treysta og stjórnarskrárbinda eignarhald og forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins. Mikilvægt er að farið verði með fiskveiðiauðlindina eins og aðrar þjóðarauðlindir þannig að nýting hennar sé tímabundinn afnotaréttur sem ekki myndar séreignarrétt .

Því var heitið í sáttmála ríkisstjórnarinnar að samráðs yrði leitað við hagsmunaaðila í sjávarútvegi um fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistjórnuninni. Við það hefur verið staðið. Allt undanfarið ár hefur viðræðunefnd verið að störfum með fulltrúm hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fulltrúum stjórnmálaflokkanna. Sú nefnd er nú skila af sér viðamikilli skýrslu þar sem tekið er á helstu álitamálum. Skýrslan veitir þó takmarkaða leiðsögn til framtíðar, enda vandséð hvernig svo stór hópur hagsmunaaðila á að geta komist að endanlegri niðurstöðu. En þó að niðurstaðan sé óljós, má segja að eitt hafi áunnist: Samráðið hefur  opnað augu þeirra sem sitja við viðræðuborðið fyrir því að breytinga sé þörf. Aðilar eru sammála um að fiskveiðiauðlindin sé og eigi að vera þjóðareign; að gjald skuli koma fyrir tímabundna nýtingu hennar; að eyða þurfi rekstraróvissu í sjávarútvegi með hlutlægum leikreglum og auknu gagnsæi í fiskveiðistjórnun, m.a. við úthlutun veiðiheimilda.

 

Nú er að hrökkva eða stökkva

Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein sem eðlilegt er að gegni hlutverki við endurreisn efnahagslífsins. Mikilvægt er að sátt náist í samfélaginu um þessa atvinnugrein og nýtingu hennar á auðlindum sjávar. Það er ekki nóg að sú sátt sé við útgerðarmenn, sáttin þarf að vera við þjóðina.

Breytingar á fiskveiðistjórnun okkar standa í órofa samhengi við þá siðferðilegu og efnahagslegu endurreisn sem er óhjákvæmileg í samfélagi okkar. Þetta er eitt stærsta verkefnið sem bíður ríkisstjórnarinnar – og veldur hver á heldur. Stjórnvöld mega ekki heykjast á þessu verki, heldur verða þau nú að sýna þann pólitíska kjark sem til þarf. Þetta er sögulegt tækifæri, og það má ekki renna okkur úr greipum.

 

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður

---------------------------------------------------------

Höfundur er formaður umhverfisnefndar og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir