Veiðigjaldið mun gjörbreyta þróun sjávarútvegsins
Það hefur ekki vakið mikla athygli að veiðigjald í sjávarútvegi mun hækka mikið á næsta fiskveiðiári. Það var á síðasta fiskveiðiári 3 milljarðar, hækkaði um 50 prósnet á þessu fiskveiðiári og er nú 4,5 milljarður. Á næsta fiskveiðiári á það að tvöfaldast, hækka um 100 prósent og verður þá 9,1 milljarður króna. Á þessum árum mun það því hækka þrefalt.
Nú er í sjálfu sér ekki mikilli ágreiningur um að réttmætt geti talist að sjávarútvegurinn greiði auðlindagjald af einhverju tagi. Það er álitið gagngjald fyrir afnotaréttinn að auðlindinni. Það varð niðurstaðan í auðlindanefndinni stóru um síðustu aldamót að sjávarútvegurinn greiddi slíkt gjald og grunnur þess væri annars vegar úthlutaðar aflaheimildir og veiddur afli í þeim tegundum sem ekki eru kvótabundnar. Hins vegar væri grunnurinn framlegðin af rekstrinum af útgerðinni í heild. Þetta kom líka fram í starfi okkar í sáttanefndinni á árinu 2010. Veitt var aðlögun að stighækkandi gjaldinu, en síðustu árin hafa verið teknar pólitískar ákvarðanir að stór hækka gjaldið. Þessi gjaldtaka var liður í viðleitni til þess að skapa meiri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Jafnframt var rætt um að sambærileg gjaldtaka yrði við nýtingu annarra sameiginlegra auðlinda, orkuauðlindanna þar á meðal.
Þessi mikla hækkun auðlindagjaldsins í sjávarútvegi er mikið umhugsunarefni og ástæða til þess að fara um hana nokkrum orðum.
Þegar menn sögðu sannleikann um tilgang veiðigjaldsins
Grundvallarhugmynd þeirra sem boðuðu auðlindgjaldtöku í sjávarútvegi var afar skýr, þegar hún var sett fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Hún var hugsuð sem hagræn aðferð við að fækka skipum, stækka fyrirtæki og stuðla að meiri arðsemi í sjávarútveginum. Gylfi Þ. Gíslason og þeir fleiri sem töluðu fyrir þessari aðferð voru heiðarlegir í framsetningu sinni. Þeirra hugsun var sú að gjaldtakan neyddi útgerðir sem sýndu minni arðsemi til þess að leggja niður starfsemi sína. Þannig myndi skipunum smám saman fækka og lagast að afrakstursgetu fiskistofnanna. Þessir menn töluðu aldrei um þetta sem sérstaka aðferð við nýliðun í sjávarútvegi, eða að það gæti talist markmið í sjálfu sér að fjölga þeim sem sæktu sjóinn. Þvert á móti. Þessi gjaldtaka átti að stuðla að hinu gagnstæða. Fækka starfsfólki, auka arðsemi, fækka fyrirtækjum, stuðla að stækkun þeirra og skapa þannig heildarafrakstur sem kæmi þjóðinni í heild til góða. Núna er þessi gjaldtaka keyrð áfram af óheiðarleika. Því að á sama tíma og hún þrefaldast á tveimur árum er yfirlýst markmið stjórnvalda alls ekki það að auka arðsemina í greininni; þvert á móti. Þarna birtist okkur því hin stór þversögn í því sem unnið er að þessi dægrin, eða unnið hefur verið að, í það minnsta.
27 prósent framlegðarinnar á að fara til ríkisins
Í svari sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi nú í haust kemur þróunin skýrt í ljós. Sjá meðfylgjandi hlekk: http://www.althingi.is/altext/140/s/0380.html
Þar segir skýrt og skorinort: „Miðað við sömu forsendur um afla, framlegð og þroskígildisstuðla og notaðar voru við útreikning á áætluðu veiðigjaldi á yfirstandandi fiskveiðiári en að hlutfall við útreikning á veiðigjaldi af reiknaðri framlegð hækki úr 13,3% í 27% má gera ráð fyrir að veiðigjald fiskveiðiársins 2012/2013 hækki úr 9,46 kr. á þorskígildiskíló í 19,21 kr. Miðað við sömu forsendur má áætla að heildargreiðsla veiðigjalds fiskveiðiársins 2012/2013 verði um 9,1 milljarður kr.“
27% af heildarframlegð sjávarútvegsfyrirtækjanna rennur sem sagt til ríkisins, í formi þessarar gjaldtöku. Hún fer þá ekki til þess að standa straum af fjárhagsskuldbindingum fyrirtækjanna. Það er kannski viðráðanlegt fyrir þau fyrirtæki sem skulda minnst eða þar sem framlegðin er mjög góð. En fyrir hin skuldugri eða fyrirtækin sem ekki hafa eins góða framlegð er þetta grafalvarlegt mál. Það má telja ljóst að ýmis fyrirtæki og fyrirtæki sem eru í þeim greinum sjávarútvegs þar sem framlegðin er lakari munu lenda í miklum vanda.
Auðindagjaldið er nefnilega reiknað sem hlutfall af heildarframlegð útgerðarinnar. Það leggst því hlutfallslega mjög þungt á þann hluta útgerðarinnar þar sem skuldir eru meiri og framlegðin lakari. Talan verður ekki 27 prósent hjá þessum útgerðum, heldur miklu meiri. Og þá fara málin að vandast.
Pólitísku spurningarnar munu hrannast upp
Afleiðingarnar verða augljósar. Fyrirtækjunum mun fækka. Samþjöppunin eykst og í einhverjum tilvikum mun útgerð á tilteknum sviðum hreinlega leggjast af. Við getum til dæmis velt því fyrir okkur hvort auðlindagjaldtaka sem svarar til 27% af heildarfamlegðinni verði rækjuútgerð sem er með laka framlegð eiga einhverja möguleika.
Afleiðingarnar geta orðið skelfilegar fyrir einstöku útgerðarform og valdið uppnámi í einstökum sjávarbyggðum. Þetta mun síðan auðvitað jafnframt leiða til þess að fjárfestingar í sjávarútvegi minnka, þrýstingur á aðhald í launamálum eykst og möguleikar fyrirtækjanna til þess að taka þátt í samfélagsverkefnum í nær umhverfinu snar minnka.
Og pólitísku spurningarnar hljóta að hrannast upp. Þegar það fer að blasa við að fyrirtækjunum fer fækkandi, samþjöppunin eykst, fyrirtækin stækka og svo framvegis mun örugglega koma fram krafa um að bregðast við með einhverjum hætti. Þá fara á stjá hugmyndir um sérúthlutanir til þess að opna mönnum aftur leið inn í sjávarútveginn, sem hins vegar stuðlar að verri afkomu og minni arðsemi.
Fjármunir streyma frá landsbyggðinni
Svo er önnur hlið þessa máls. Í fyrrgreindu svari sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra kemur skýrt fram að 85 prósent veiðigjaldsins verður til á landsbyggðinni, þ.e utan höfuðborgarsvæðisins. Það svarar til um 7,7 milljarða króna sem þannig má segja að verði teknir út úr þeim litlu hagkerfum sem sjávarplássin í rauninni eru. Þessir fjármunir eiga að fara í ríkissjóð og tölulegar staðreyndir segja okkur síðan að mjög lítill hluti þeirra fjármuna muni síðan rata út á landsbyggðina aftur. Þannig munu stóraukast þeir fjármagnstilflutningar frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, sem þegar fara fram í gegn um ríkisfjármálin, skattana og fjárveitingarnar í fjárlögunum.
Hvað ber að gera?
En hvað er þá til ráða?
Þrennt vil ég nefna.
Í fyrsta lagi þurfa menn að skoða það mjög vel hvort það sé verjandi að taka með sértækum hætti 27 prósent af framlegð einnar atvinnugreinar til sérstakrar ráðstöfunar í ríkissjóði. Það ofan í aðra skattheimtu á atvinnulífinu, kolefnisgjaldi og þess háttar fer þá að verða gríðarlega hátt hlutfall af hagnaði. Nauðsynlegt er því að draga fram upplýsingar um þessi heildaráhrif.
Í annan stað þá verðum við að skoða aðferð þessarar gjaldtöku þegar hún er orðin svo hátt hlutfall af framlegðinni. Það er nauðsynlegt að innheimtan endurspegli betur mismunandi framlegð einstakra greina innan sjávarútvegsins. Það getur ekki gengið að aukin framlegð í einum þætti sjávarútvegsins snarhækki gjaldtöku á öðrum sviðum hans, þar sem framlegð hefur kannski þróast í þveröfuga átt.
Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt að sem stærstum hluta þessara miklu fjármuna verði ráðstafað með sérstökum hætti til þeirra byggða sem greiða þessi gjöld í gegn um þá atvinnustarfsemi sem þar er. Mætti hugsa sér að þessir fjármunir væru notaðir til uppbygginga innviða, nýrrar atvinnusköpunar og eflingar sveitarfélaganna. Hagræðingin og tækniþróunin í sjávarútveginum mun nefnilega hafa í för með sér svipaða þróun og við höfum séð. Það er því sanngjarnt að þessum fjármunum sé ráðstafað til annarrar uppbyggingar í sjávarbyggðunum, í stað þeirra atvinnutækifæra sem fyrirsjáanlega munu tapast vegna þróunar sem við þekkjum svo vel.
Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.