Vandanum velt yfir á landsbyggðina

Því miður er ekki hægt að leyfa sér að vera bjartsýnn á að ríkisstjórnin hyggist endurskoða þau áform sín að skerða hin svo kölluðu aukaframlög Jöfnunarsjóðs og ráðstafa stórum hluta þess sem eftir stendur til eins sveitarfélags, Álftaness. Þessi áform eru þó mjög skaðleg fyrir mörg sveitarfélög, ekki síst á landsbyggðinni. Ljóst er að gangi  þau eftir mun það hafa umtalsverð áhrif á fjárhagsáætlun margra sveitarfélaga og þau verða að gera aðrar ráðstafanir til aukinnar tekjuöflunar eða með niðurskurði á þjónustu.

 

Þessi áform eru líka sérlega óréttlát, því segja má að með þeim sé verið að velta fjárhagsvanda eins sveitarfélags, Álftaness yfir á herðar annarra, ekki síst þeirra sem eru skuldugust, eða glíma við rekstrarvanda af öðrum ástæðum.

 

Dæmi frá Norðurlandi vestra

Tökum dæmi héðan af Norðurlandi vestra. Fjögur sveitarfélög á þessu svæði eru í hópi þeirra 17 sem fá hlutfallslega stærstan hluta tekna sinna af þessu aukaframlagi, sem hefur verið við lýði meira og minna frá árinu 1999. Þetta eru Húnaþing vestra sem fékk á síðasta ári 18 milljónir, Húnavatnshreppur með 11 milljónir, Blönduóssbær með 18 milljónir og Sveitarfélagið Skagafjörður með 44,5 milljónir.

Í fjárlögum yfirstandandi árs var ákveðið að skerða þessa upphæð um 30%. Upphæðin fór úr 1 milljarði króna árið 2010 í 700 milljónir í ár. Til viðbótar kemur það síðan að ríkisstjórnin ákvað að ráðstafa 300 milljónum króna til eins sveitarfélags, Álftaness.

Þannig má segja að verið sé að velta vanda Álftaness að hluta yfir á herðar annarra sveitarfélaga, ekki síst á landsbyggðinni. Þetta er sérlega óréttlátt og mun hafa neikvæðar byggðalegar afleiðingar í för með sér.

 

Þau eru látin bera herkostnaðinn

Um þessi mál fjölluðu sveitarstjórnarmenn mikið á fundum með okkur þingmönnum kjördæmisins í kjördæmaviku nú nýverið. Lýstu sveitarstjórnarmenn að vonum miklum áhyggjum sínum vegna þessa tiltækis. Í framhaldinu tók ég málið upp í sérstökum umræðum á Alþingi, þar sem innanríkisráðherra var til andsvara. Þó umræðan hafi verið góð og gagnleg var ekki að finna nein viðbrögð í þá átt að túlka mætti sem vilja til þess að endurskoða þetta. Það voru mikil vonbrigði.

60% skerðing á milli ára á þessu framlagi til sveitarfélaga, sem þurfa að hyggja að hverri krónu og hverjum aur, er grafalvarlegt mál. Þau sveitarfélög sem háðust eru þessu framlagi fengu um 5% sinna tekna af þessu framlagi. Það munar því um minna þegar sú upphæð er lækkuð svona mikið. Fyrir nú utan það að óskiljanlegt má kalla að láta sér detta í hug að gera það með þeim hætti að láta þessi sveitarfélög bera herkostnaðinn að hluta af björgunaraðgerðum gagnvart einu sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu

 

Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir