Um Skagafjarðarveitur
Málefni Skagafjarðarveitna hafa fundið farveg í hina pólitísku umræðu, nú síðast á sveitarstjórnarfundi þar sem umræða götunnar virðist hafa ratað inn í hjörtu einstakra sveitarstjórnarfulltrúa. Það er miður, að veiturnar okkar sem ávallt hafa starfað í sátt við samfélagið, skuli nú vera orðnar bitbein í hráskinnaleik stjórnmálanna.
Líklegast er rótina að finna í þeirri ákvörðun og óheillaspori, að legga Skagafjarðarveitur ehf. niður sem sjálfstætt fyrirtæki á síðasta ári og færa reksturinn undir sveitasjóð, sem hverja aðra almenna starfssemi.
Meðan Skagafjarðarveitur ehf. voru reknar sem sjálfstætt félag, naut ég þess trausts að sitja í þriggja manna stjórn félagsins frá upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Sú stjórn starfaði við hlið þáverandi veitustjóra og starfsmanna fyrirtækisins og markmiðin voru skýr, að efla og stækka veiturnar og þjónusta sem best alla viðskiptavini fyrirtækisins, stóra sem smáa. Dægurþras eða stjórnmál rötuðu aldrei inn á borð þeirrar stjórnar, enda verkefnin óskyld og meira gefandi.
Nú kveður við annan tón eins og glöggt mátti heyra á síðasta sveitarstjórnarfundi. Þar voru reyndar bornar fram tvær tillögur af svipuðum toga, þ.e. að láta fara fram lögfræðilega úttekt á réttindum veitnanna til nýtingar á auðlindum héraðsins. Sú tillaga þessara tveggja, sem laut einnig að fyrirhuguðum virkjunarsvæðum og kaldavatnslindum var mér meira að skapi og studdum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hana heilshuga, enda greinargerð tillögunnar skýr og markviss. Í þessu sambandi er þó rétt að geta þess, að í landslögum eru réttindum almenningsveitna gert hátt undir höfði og þess gætt að hagsmunir samfélagsins í þessum efnum séu ávallt ofar einkahagsmunum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn og í byggðaráði hafa verið talsmenn þess að hagsmunum sveitarfélagsins sé gætt í hvívetna í málum, sem varða landareignir eða önnur réttindi. Það er enn töluvert verk óunnið í að skera úr um eignarhald á landsspildum og lóðum sem teljast ættu til eigna sveitarfélagsins og er nauðsynlegt að bæta þar úr hið fyrsta. Lagaleg skoðun á réttindum Skagafjarðarveitna er liður í þeirri vinnu, sem ber að fagna.
Jón Magnússon,
sveitarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.