Þjóðaratkvæði um ESB samhliða forsetakosningum
feykir.is
Aðsendar greinar
09.02.2012
kl. 08.19
Umsókn Íslands að ESB klýfur þjóðina í tvennt. Hvarvetna eru menn tvístígandi – og þeirri spurningu heyrist oftar kastað upp: hvert er framhaldið? Harkan í umræðunni eykst. Umsóknin hefur komið bæði vinnu Alþingis og stjórnsýslunnar í uppnám Það er heldur ekki að undra. Margir þeir sem voru hlynntir því að sækja um aðild héldu að hér væri um samningaviðræður að ræða. Þeir héldu í sakleysi sínu að hér gengju tveir fullbærir aðilar til samninga á sjálfstæðum forsendum. Sumir halda enn í þessa óskhyggju og tala um samninga.
Ég virði skoðanir opinberra ESB-sinna sem viðurkenna af heilindum samningaviðræðurnar eins og þær eru: aðlögunarferli. Þeir vilja hraða för okkar eins og kostur er inn í sambandið. Þeir eru ekki í neinu „bjölluati“. För annarra er hins vegar heldur verri – þeirra sem tala í vestur en ganga samt í austur þegar ESB-aðild er til umfjöllunar.
Aðlögun en ekki samningar við ESB
Það er mikill misskilningur að hægt sé að leika sér í milliríkjasamningum, að „kíkja hvað sé í pakkanum“. Ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu fer inn í aðlögunarferli þar sem umsóknarríki tekur jafnt og þétt upp lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Ráðamenn í Brussel gera ráð fyrir að umsóknarríki hafi gert upp hug sinn og vilji inn í félagsskapinn. Evrópusambandið býður ekki upp á neinar óskuldbindandi viðræður. Á vefsíðu ESB sem fjallar um stækkun ESB segir orðrétt: „Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu – sem fylla 90 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“
Verðum að uppfylla kröfur ESB frá fyrsta degi aðildar
Aðildarviðræðurnar felast í því að bera saman lög og regluverk Íslands og ESB og skoða hverju Ísland þarf að breyta í sínu kerfi og stjórnsýslu til að falla að regluverki ESB.
Að lokinn rýnivinnu ESB metur það hvernig Ísland er í stakk búið til að gangast undir regluverk og innra skipulag ESB á einstökum sviðum. Það er skilyrði af hálfu ESB að Ísland hafi aðlagað sig að öllu regluverki og kröfum ESB áður en hægt er að ljúka „samningum“. Ísland þarf að geta sýnt fram á að það geti starfað sem fullgildur aðili frá fyrsta degi aðildar. Þess vegna erum við í aðlögunarferli að ESB en ekki í samningaviðræðum.
Vissulega tekur aðildin ekki gildi fyrr en Ísland og ríki ESB hafa samþykkt aðildarsamning. Áður en að þeim lokadegi kemur þarf Ísland hins vegar að hafa aðlagað sig að ESB með fullnægjandi hætti að mati ESB-ríkjanna.
Að kaupa sér velvild
ESB er gjafmilt í aðlögunarferlinu. Þegar svokallaðri rýnivinnu er lokið er reynt að leggja mat á hvað það kosti að undirbúa umsóknarríkið fyrir aðild. IPA-styrkir (Instrument for pre-accession assistance) – milljarðar króna, ferðastyrkir og aðlögunarfé -- standa umsóknarríkinu til boða til að breytast í ESB-ríki.
Ummæli Ögmundar Jónassonar um að stjórnsýslan og stofnanakerfið íslenska ánetjaðist ESB í gegnum þessa peninga vöktu hörð viðbrögð. En sveltandi stjórnsýslustofnunum er vorkunn og auðvitað eru það stjórnmálamenn sem bera ábyrgðina en ekki embættismenn.
Böggull fylgir þó skammrifi því krafist er að veitt skuli umfangsmikil fríðindi gagnvart þessum aðlögunarstyrkjum. Þingsályktunartillaga og lagafrumvarp þessa efnis liggur nú fyrir Alþingi sem felur í sér að sendiboðum ESB, sem eiga að sannfæra þjóðina um ágæti ESB og undirbúa jarðveginn fyrir aðild, eru boðin ómæld skattfríðindi og persónuleg lögvernd.
Umsókn í ESB á krossgötum
Þegar framkvæmdastjórn ESB hefur lokið að rýna í hvern kafla sem hinu svokallaða samningaferli er skipt upp í, en þeir eru 33, gerir hún tillögu til ESB-landanna 27 annað hvort um að Íslendingar séu hæfir til að hefja samninga um kaflann eða þá að okkur er sagt að svo sé ekki og send heim og lesa skilyrði ESB betur. Það gerðist varðandi kafla 22 um byggðastefnu og kafla 11 um landbúnað og dreifbýlisþróun. Geta má þess að (gagn)rýniskýrsla ESB um kafla 13 um sjávarútvegsmál hefur ekki enn litið dagsins ljós, sem væntanlega er vegna innbyrðis ágreinings ESB-landanna um regluverk til næstu framtíðar fyrir þessa lífæð okkar, sjávarútveginn.
Kröfur ESB liggja nú fyrir
Nú er rýnivinnu ESB að mestu lokið þ.e.a.s. samanburði á lagaverki ESB og Íslands, auk tillagna framkvæmdastjórnarinnar til ráðs ESB um hvernig skuli höndla Ísland í einstökum málum. Þrjú ár verða liðin í vor frá því umsóknin var send og orðið ljóst hvað í boði er. „Samningar“ sem sumir kalla svo geta þá hafist.
„Samningar“ er þó rangnefni því í raun snúast þeir fyrst og fremst um aðlögun okkar að regluverki ESB, hvernig skuli haga röðun og tímasetningu fyrir hvert þrep í aðlöguninni sem verður að hafa átt sér stað áður en viðkomandi kafla af þeim 33 sem um ræðir er lokað.
Hér má minna á að í reynd er það ESB sem tekur ákvörðun um opnun, efnismeðferð og lokun hvers kafla fyrir sig. Allt tal um samningagerð og jafnræði milli aðila við hana er afbjögun. Ekki síst þegar það er meginstefna Íslands að ljúka samningagerð hvað sem það kostar til þess eins að geta borið samninginn undir þjóðaratkvæði.
Eins og ítarlega er rakið hér að framan þá er umsókn Íslands að ESB þessa stundina á afdrifaríkum krossgötum. Enn er hægt að snúa við frá því foraði sem við sjáum að við höfum leiðst út í. Að minnsta kosti er hægt að spyrja þjóðina hvort hún vill fara í þá óafturkræfu aðlögun og miklu óvissu sem fram undan er.
Spyrjum þjóðina núna
Því má spyrja þessara spurninga:
- Viljum við í skugga aðlögunarsamninga við ESB tefja hér eðlilega lagavinnu, uppbyggingu og þróun atvinnulífs og samfélags á sjálfstæðum forsendum?
- Viljum við taka við milljörðum króna frá ESB í aðlögunarstuðning til að það kaupi sér tímabundna velvild landsmanna?
- Viljum við veita þiggjendum þessa erlenda gjafafjár – IPA-styrkjanna – víðtæk skattfríðindi?
- Viljum við leyfa erlendu ríkjasambandi að koma hér upp öflugum upplýsinga- og áróðursmiðstöðvum og verja þar til hundruðum milljóna króna ár hvert?
- Hvaða þýðingu hefur það að stilla upp samningsafstöðu og fara með óskalista til Brussel, þegar við vitum fyrir fram hvaða kröfur ESB setur fyrir því að ljúka samningum?
Kjósum um ESB áður en lengra er haldið
Ég þekki vel þá orðræðu að ekki þýði í aðlögunarferlinu að nefna tollvernd fyrir íslenskan landbúnað. Eigi heldur þýði að nefna bann við innflutningi á hráu kjöti eða jafnvel lifandi dýrum. Krafa ESB stendur um að gjörbylta stoðkerfi íslensks landbúnaðar, að afsala okkur fyrirfram rétti til nýtingar sjávarspendýra. Lýsa yfir að okkur sé ekkert að vanbúnaði að samþykkja að fiskveiðum sé stýrt frá Brussel o.s.frv. Þessum atriðum virðast áhugamenn um að ljúka samningum hvað sem það kostar tilbúnir að kyngja, þó það brjóti gegn þjóðarhagsmunum, en bæta alltaf við að allt sé í lagi því þjóðin eigi síðasta orðið. Ég treysti þjóðinni til að vera sá öryggishemill sem heldur, þegar ráðandi stjórnmálamenn misstíga sig á ögurstund eins og sem nýleg dæmi sanna. Hins vegar tel ég farsælla og rétt að þjóðin komi fyrr að málum og kveði á um framhaldið.
Rétt er að vekja athygli á að við erum ein af ríkari þjóðum Evrópu. Þess vegna þurfum við að greiða milljarða króna inn til miðstjórnar Evrópusambandsins ef við göngum þar inn.
Samningar okkar við önnur ríki utan ESB verða í uppnámi meðan á aðlögunartímanum stendur, því þeim þarf öllum að segja upp fyrir aðild. Forsætisráðherra sagði nýlega að Íslendingar þyrftu að ákveða á næstu vikum eða mánuðum hvort við tækjum upp evru. Þrír stjórnmálaflokkar hafa lýst sig andvíga aðild. Aðeins einn er fylgjandi. Eðlilegt er á þessum tímamótum að spyrja þjóðina hvort eigi að halda þessu ferli áfram.
Við þekkjum nú vel kröfur ESB. Að óbreyttu fer aðlögun að ESB á fullt og erfitt getur verið að kippa einstökum hlutum aðlögunarsamningsins til baka þó svo samningurinn í heild verði felldur. Leggjum framhald aðlögunarinnar að ESB því í dóm þjóðarinnar áður en lengra er haldið.
Jón Bjarnason, alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.