Það skiptir ekki neinu máli

Það er ekki hægt að tala við fólk, hvorki stjórnarliða né stjórnarandstöðu. Það er ekkert mark á neinum takandi í stjórnsýslunni, hvorki minni spámönnum né embættismönnum ráðuneyta. Það skipti ekki máli hversu mikið af gögnum eru lögð fram er benda sannarlega á  hroðalega meðferð handhafa aflaheimilda á meðbræðrum sínum síðastliðin áratug.

Það skiptir ekki lengur neinu máli þótt íbúar Vestfjarða flýi undan kvótakerfinu hundruðum saman á hverju ári frá heimahögum sínum og verðlausum eignum.

Það skiptir ekki máli hversu mikið og hversu lengi stjórnvöld brjóta mannréttindi á íbúum sjávarbyggðanna, því verður haldið áfram út yfir gröf og dauða með samþykki Alþingis og dómstólanna.

Það skiptir ekki máli hversu margir skrifa og tala um land allt á ráðstefnum, fundum og í fjölmiðlum um stórfellda galla aflamarkskerfisins.

Það skiptir ekki máli hversu svakaleg fjárhagsstaða útgerðarinnar er gagnvart lánastofnunum.

Það skiptir ekki neinu máli þótt Hafrannsóknarstofnun haldi áfram að gefa út falsaðar skýrslur um stofnstærðir, veiðireglur og brottkast.

Það skiptir ekki neinu máli þótt kvótakerfið hafi varðað veginn til algjörs hruns siðferðis þjóðarinnar og fall efnahagskerfisins.

Það er ekkert sem skiptir máli lengur nema óbreytt kerfi og óbreytt eignarhald.

Svona er staðan og svona verður hún um aldur og ævi

Þeir sem ráða Íslandi eru ekki lýðræðiskjörnir fulltrúar þjóðarinnar, ekki forsetinn, ekki embættismennirnir

Þeir sem stjórna og ráða landinu eru eigendur erlendra vogunarsjóða og LÍÚ.

Engin rök duga, engar staðreyndir skipta lengur máli.

Níels A. Ársælsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir