Stöndum vaktina – verjum innanlandsflugið

Reykjavíkurflugvöllur gegnir ómetanlegu hlutverki. Hann er miðstöð sjálfs innanlandsflugsins. Stjórnsýslan er þannig að hún er öll meira og minna samanþjöppuð á höfuðborgarsvæðinu, sjúkrahússþjónustan sömuleiðis. Sama er að segja um aðra þjónustu sem menn þurfa að sækja á höfuðborgarsvæðið. Og nú hefur greinilega komið fram sú stefnumótun ríkisvaldsins að sjúkrahússþjónustan eigi í vaxandi mæli að færast suður. Það mun hafa það í för með sér að sjúkraflug mun aukast.

Þessi mál voru rædd utandagskrár sl. miðvikudag, að frumkvæði Kristjáns L. Möller fyrrverandi samgönguráðherra, þar sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ( ráðherra samgöngumála) var til andsvara. Í þeirri umræðu tók ég þátt og meðfylgjandi grein byggir að nokkru á umfjöllun minni.

Reykjavíkurflugvöllur í þágu Reykvíkinga
Sem miðstöð samgöngukerfisins er Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er staðsettur í dag, ómetanlegur. Hvers konar röskun á vellinum mun því hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir alla þessa starfsemi,  einkanlega á landsbyggðinni. En myndi líka hafa mikil efnahagsleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu, en það gleymist oft. Það er ljóst að staðsetning flugvallarins er forsenda fyrir margs konar stjórnsýslu, þjónustustarfsemi hins opinbera og atvinnusrekstri á höfuðborgarsvæðinu. Án flugvallarins myndi fótunum því verið kippt undan margháttaðri starfsemi í Reykjavík, sem nú á sér stað þar, einmitt vegna nálægðarinnar við Reykjavíkurflugvöll.  Allar hugmyndir um að færa völlinn yrði því ekki bara áfall fyrir landsbyggðina heldur líka bylmingshögg fyrir höfuðborgarsvæðið. Þeim mun makalausara er að þingmenn og borgarfulltrúar í Reykjavík skuli svo margir tala gegn þessari starfsemi.

Borgarstjórnarmeirihlutinn vill moka flugvellinum burtu
Sífelld óvissa grúfir yfir innanlandsfluginu, vegna ítrekaðra krafna um að leggja niður alla starfsemi á Reykjavíkurflugvelli. Innanríkisráðherra upplýsti það til dæmis í umræðunum að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík, meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins, væri grjótharður í þeim vilja sínum að leggja innanlandsflugið af í núverandi mynd með því að ætla moka Reykjavíkurflugvelli burt. Umræðan á Alþingi var því nauðsynleg og er tilefni til þess að við stöndum sem best vaktina í þessu mikla hagsmunamáli lands og þjóðar.

Kristján L. Möller minnti meðal annars á í ræðu sinni ógnvænlega staðreynd. Hann sagði: „Árið 2016 rennur út leyfi fyrir norður-suður flugbrautinni, þ.e. lengri flugbrautinni — takið eftir, það er bara eftir fimm ár — og árið 2024 fyrir hinni brautinni sem er austur-vestur brautin.

Ef við missum norður-suður brautina frá okkur dettur nýting flugvallarins úr 99% niður í um 70%, sem er auðvitað langt undir rekstrarmörkum fyrir áætlunarflugvöll, því að nýting áætlunarflugvalla þarf helst að vera í kringum 96% til að það sé viðunandi. Þetta er hin grafalvarlega staða hvað þetta varðar.“

Undir þetta ber að taka.

Óraunhæfar hugmyndir um nýja staðsetningu
Órökstuddar og óraunsæjar hugmyndir hafa verið  settar fram um að færa flugvöllinn til innan borgarlandsins eða að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. Hvorugt gengur upp. Það er ljóst að aldrei verður ráðist í að byggja nýjan Reykjavíkurflugvöll á öðrum stað. Hvorki er það tækt fjárhagslega né flugtæknilega. Og verði innanlandsflug flutt til Keflavíkur, þarf ekki lengur um að binda. Þá eru allar forsendur úr sögunni og það leggst bara af í heild sinni, nema í einhverri smávægilegri, óhagkvæmri og rándýrri mynd fyrir notendur flugsins.

Vörumst falsmyndirnar
Skynsamlegast er því að hverfa frá öllum slíkum hugmyndum. Það vita allir að það er fjárhagslega óraunhæft að færa hann til innan höfuðborgarsvæðisins. Marg oft er búið að fara yfir aðra kosti við staðsetningu vallarins innan Reykjavíkur. Engir þeirra eru raunhæfir, meðal annars út frá flugtæknilegu sjónarhorni. Það að ætla að færa flugvöllinn upp á Hólmsheiði er hreint óðs manns æði. Það myndi skerða nýtingu flugvallarins og þar með í rauninni kippa grundvellinum undan innanlandsflugi í þeirri mynd sem við þekkjum.

Þetta er staðan og menn eiga ekki að reyna að draga upp einhverjar aðrar myndir; falsmyndir.

Forsenda aukinnar ferðaþjónustu á landsbyggðinni
Gleymum því ekki að Reykjavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki við að auðvelda ferðamönnum að heimsækja önnur landsvæði. Nyti hans ekki við myndi mjög sneiðast um möguleika ferðamanna, ekki síst erlendra, á því að ferðast út um landið. Reynslan kennir okkur það. Það væri því stórfurðulegt á sama tíma og menn eru með áform um að auka vægi ferðaþjónustunnar út um landið að veikja eina meginforsendu slíks með því að vega að starfsemi innanlandsflugsins og leggja niður starfsemi Reykjavíkurflugvallar eða skerða hana með einhverju móti. Menn tala um nauðsyn þess að dreifa ferðamannastraumnum um landið, í þágu íslenskrar ferðaþjónustu almennt. Aðför að Reykjavíkurflugvelli myndi vinna þvert gegn því markmiði.

Innanlandsflugið - besta dæmið um almenningssamgöngur
Á hátíðarstundum tala menn um gildi almenningssamgangna. Það er vel. En hvað vilja menn þá kalla innanlandsflugið? Er það ekki besta dæmið um almenningssamgöngur, sem að mestu leyti ganga fyrir sig án nokkurs kostnaðar – heldur þvert á móti – fyrir ríkissjóð eða hið opinbera?  Það ferðuðust um 740 þúsund farþegar í innanlandsflugi á síðasta ári. Sem er 9,4% fækkun frá árinu á undan.  Þar af fór rífur helmingur, 360 þúsund manns, um Reykjavíkurflugvöll, sem er fækkun um 5,3%.

Þessi fækkun á farþegafjölda er mjög alvarleg og kemur ofan í samdrátt á árinu 2009. Ástæðurnar eru vitaskuld margvíslegar. Mest munar á síðasta ári að farþegum um Reykjavíkurflugvöll og Bakka til Vestmannaeyja fækkaði um tæp 50 þúsund. Um 52,5% á milli Reykjavíkur og Eyja og tæp 90% milli Bakkaflugvallar og Eyja. Ástæður þess verða raktar til aukinnar umferðar sjóleiðina frá Landeyjarhöfn. Samdráttur í atvinnulífinu og verri kjör almennings skipta þarna líka miklu máli fyrir þróunina almennt, þar sem ríkisvaldið hefur bætt gráu ofan á svart með því að leggja sérstakar álögur á farþega sem fljúga innanlands. Finnst þá einhverjum ástæða til þess að veikja forsendur innanlandsflugsins enn?

Fleiri ógnir steðja að
Hótanir varðandi Reykjavíkurflugvöll eru nefnilega ekki  eina ógnunin sem að innanlandsflugi stafar. Gríðarlegar álögur hafa verið lagðar á innanlandsflugið upp á síðkastið, eins og ég rakti í utandagskrárumræðu, sem ég hafði frumkvæði að á Alþingi fyrr í vetur. Þar kom í ljós að þessar álögur nema um 400 milljónum króna, sem er um 10% af veltu innanlandsflugsins. Það er ástæða til þess að hvetja innanríkisráðherra til þess að endurskoða þessa gjaldtöku. Sérstaklega vegna þess að hann hefur sýnt að hann vill veg innanlandsflugsins sem mestan.

En alvaran er mikil. Nú má vænta frekari niðurskurðar á þjónustu eða hærri kostnaðar fyrir innanlandsflugsins í ljósi fjárlagaafgreiðslunnar. Fjárlögin settu umtalsverða hagræðingarkröfu á hina opinberu þjónustu vegna innanlandsflugsins. Afleiðingarnar verða því að óbreyttu að álögur á farþega innanlandsflugsins vaxi eða þjónustan minnki á flugöllunum. Hvoru tveggja er grafalvarlegt fyrir þessa mikilvægu þjónustugrein okkar á landsbyggðinni.

 

Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir