Sniðgengu stjórnvöld sveitarstjórnarlögin?

Sveitarstjórnarlögin eru skýr, þegar kemur að samráði við heimamenn um ákvarðanir stjórnvalda sem varða einstök landssvæði. „Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega.“ Þannig segir í 97. grein sveitarstjórnarlaga. Skýrara getur það ekki verið.

Nú á síðustu árum hafa verið teknar miklar og stefnumótandi ákvarðanir, sem hafa haft mjög neikvæð áhrif á einstakar byggðir og svæði. Niðurskurður í heilbrigðisstofnunum, menntastofnunum, löggæslu og ýmiss konar annarri grunnþjónustu, eru dæmi um þetta. Þessar aðgerðir  hafa vitaskuld fyrst og fremst bitnað á íbúunum, með lakari þjónustu, en einnig í færri störfum og lakari atvinnutækifærum.

Tökum Skagafjörð sem dæmi. Þar hefur verið tekið saman að að opinberum störfum hefur fækkað um nær 15% frá árinu 2008. Opinber störf í Skagafirði voru um 330 árið 2008, en voru í fyrra 282. Í heilbrigðisstofnuninni einni hefur verið fækkað um 33 stöðugildi eða um 28%, af heildargilda. Þetta er ekki einstakt dæmi, heldur dæmi um það sem gert hefur verið á síðustu fjórum árum.

Deila má auðvitað um ástæður þessa. En hitt er óumdeilanlegt, að lög kveða mjög skýrt á um að stjórnvöldum beri að leita umsagnar viðkomandi landshlutasamtaka, þegar stjórnvöld grípa til ráðstafana sem varða viðkomandi landssvæði sérstaklega. Óumdeilt hlýtur það að vera að aðgerðir af þeim toga og af þeirri stærðargráðu sem hér hefur verið rakið hljóta að falla undir 97. grein sveitarstjórnarlaganna og varða viðkomandi landshluta sérstaklega.

Hefur það verið gert?  Leituðu stjórnvöld umsagna landshlutasamtakanna þegar þau ákváðu þetta? Hafa stjórnvöld fylgt eftir þeirri lagalegu skyldu sem á þau hefur verið lögð?

Við munum að heimamenn alls staðar á landinu, kvörtuðu mjög undan skorti á samráði þegar gripið var til aðgerða eins og þeirra sem að undan hafa verið rakin. Áform stjórnvalda birtust heimamönnum, líkt og okkur þingmönnum, þegar fjárlagafrumvarpið var lagt á borð okkar; sem sagt eftir að ákvörðunin hafði verið tekin.

Nú hefur stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sent bréf til allra ráðuneyta þar sem athygli þeirra er að gefnu tilefni vakin á fyrrnefndu ákvæði í nýjum sveitarstjórnarlögum. Sjálfur tók ég þetta mál upp á Alþingi sl. miðvikudag, gerði grein fyrir efni málsins og ég beindi orðum mínum til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, sem fer með málefni sveitarfélaga í stjórnsýslunni. Spurningarnar sem ég lagði fyrir ráðherrann voru eftirfarandi: Hefur ráðuneyti hans með einhverjum hætti komið að því máli í ljósi þess sem ég vitnaði til? Hyggst hæstv. ráðherra bregðast við í ljósi þess að erindi um það hafa borist ráðuneyti hans og öðrum ráðuneytum?

Það verður forvitnilegt að sjá hverju ráðherrar svara sveitarstjórnarmönnum á Norðurlandi vestra. Tilefni bréfaskrifta þeirra tilráðuneytanna eru ærin og brýn. Lagabókstafurinn er skýr, en það virðist blasa við að hann hafi ekki verið virtur þegar stjórnvöld gripu til aðgerða á þessu kjörtímabili, sem höfðu mikil áhrif í einstökum landssvæðum.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir