Skagfirðingar einhuga um að styðja Jón Bjarnason til góðra og bráðnauðsynlegra verka
Sveitarfélagið Skagafjörður glímir í kreppunni eins og örugglega fleiri sveitarfélög við þrengri fjárhag en áður. Nauðsynlegt er að leita allra leiða til að auka tekjur sveitarfélagsins til þess að auðvelda rekstur og bæta hag íbúa.
Nærtækasta leiðin til tekjuaukningar er að leyfa auknar veiðar á nytjastofnum sjávar og til þess að stuðla að því lagði ég fram eftirfarandi tillögu í sveitarstjórn:
Sveitarstjórn Skagafjarðar leggur til við ríkisstjórn Íslands að stórauka veiðiheimildir á nytjastofnum sjávar Eftir nokkrar umræður um tillöguna var eftirfarandi breytingatillaga samþykkt:
Sveitarstjórn Skagafjarðar fagnar áformum sjávarútvegsráðherra um að láta fara fram óháða úttekt á forsendum tillagna Hafrannsóknastofnunar og ákvarðana um magn veiðiheimilda í þorski og öðrum nytjategundum. Sveitarstjórn hvetur ráðherra til að fylgja þessum áformum eftir og hrinda þeim í framkvæmd hið fyrsta og leggur áherslu á að veiðiheimildir verði auknar á þeim tegundum og svæðum þar sem ljóst þykir að hægt sé að auka afla með sjálfbærum hætti, til hagsbóta fyrir sjávarbyggðirnar í landinu.
---
Í umræðunni hafa farið hátt deilur um sjávarútvegsmál og er því vissulega mikið gleðiefni þegar fulltrúar allra flokka geta sameinast um uppbyggilega tillögu í sjávarútvegsmálum. Ég er reyndar þess fullviss að algjör frumforsenda þess að það náist sæmileg sátt um sjávarútvegsmál sé að fara gagnrýnið yfir líffræðilegan grundvöll núverandi fiskveiðiráðgjafar sem vonlaust skömmtunarkerfi byggir á.
Ráðgjöf Hafró grundvallast á reiknisfiskifræðilegum forsendum sem ganga í berhögg við viðtekna vistfræði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.