Segjum já við gjaldfrjálsum skólamáltíðum Skagafjörður!
Í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum leggur verkalýðshreyfingin áherslu á að hluti gjaldskrárhækkana sveitarfélaga frá síðustu áramótum verði dregin til baka, að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað og að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar. Svo virðist sem einhver sveitarfélög leggist því miður gegn gjaldfrjálsum skólamáltíðum en ríkið kemur til með að greiða 75% þess kostnaðar, eða tæpa 4 milljarða af 5 milljörðum.
Skagafjörður á umsvifalaust að stíga fram og styðja heilshugar þá kjarasamningskröfu að afnema gjöld fyrir skólamáltíðir og hvetja önnur sveitarfélög til þess að gera slíkt hið sama. Slík sameiginleg aðgerð ríkis og sveitarfélaga yrði þannig liður í því að ná skynsamlegum langtímasamningum sem styðja við verðbólgumarkmið og skapa forsendur til að lækka vexti, sem ætti sannarlega að vera hagsmunamál allra sveitarfélaga í landinu.
Menntakerfið er sterkasta samfélagslega jöfnunartækið sem við eigum og á hvorki menntun eða máltíðir barna á skólatíma að ráðast af tekjum foreldra. Foreldrar barna bera einna mestu byrðarnar þegar kemur að útgjöldum og eiga einstæðir foreldrar sem og foreldrar með lágar tekjur oft erfitt með að ná endum saman. Í þeirri verðbólgutíð sem við stöndum öll frammi fyrir munar um hverja krónu og eiga stjórnvöld að leita allra leiða til að íþyngja ekki fólki um of með álögum. Nágrannar okkar Finnar og Svíar hafa stigið þetta skref að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir og er löngu tímabært að við gerum það einnig. Og þá ættum við að bjóða upp á máltíðir eldaðar frá grunni á staðnum, úr næringarríku hráefni sem fengið er úr heimabyggð fyrir börnin okkar öll.
Álfhildur Leifsdóttir
Oddviti VG og óháðra Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.