Samfélag fyrir alla
Við viljum byrja á að þakka Þuríði Hörpu fyrir að vekja máls á málefnum fatlaðra og annarra minnihlutahópa. Meðfylgjandi er svar okkar við ágætri grein hennar.
Skagafjörður í fararbroddi í yfirfærslu málaflokksins
Sveitarfélagið Skagafjörður er eitt þeirra sveitarfélaga sem var í fararbroddi þegar málefni fatlaðs fólks fór frá ríkinu til sveitarfélaga. Hér er lögð áhersla á að veita betri þjónustu, nær þeim sem þurftu á henni að halda með þá hugmyndafræði að leiðarljósi að í nærsamfélaginu sé þjónustan betri. Í þessum anda ætla VG og óháðir að vinna áfram og í anda þeirra laga og reglugerða sem málaflokknum tilheyrir og þeirri hugmyndafræði sem lá að baki flutningi málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga.
Að hverju vilja VG og óháðir stefna á næsta kjörtímabili?
VG og óháðir vilja vinna markvisst að því á næsta kjörtímabili að bæta þjónustu við fatlað fólk og skapa þau skilyrði sem þarf til að öllum standi til boða eðlileg og sem jöfnust lífskjör innan sveitarfélagins. Sú vinna verði unnin í samvinnu við hagsmunasamtök fatlaðra og þá einstaklinga og aðstandendur þeirra sem þjónustuna nýta. Lög og reglugerðir segja til um það hvernig þjónusta á að vera við fatlað fólk. Þar er kveðið á um að fötluðu fólki skuli tryggt jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og þeim sköpuð þau skilyrði sem þarf til að geta lifað eðlilegu lífi. Íslensk stjórnvöld hafa gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar varðandi réttindi fatlaðra, einkum samning Sameinuðu þjóðanna. Þar stendur einnig að tryggja eigi heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þeirra. Við munum kappkosta að þessi réttindi verði tryggð í raun.
Aðgengismál má sannarlega bæta í sveitarfélaginu
VG og óháðir vilja bæta aðgengi að byggingum sveitarfélagsins og að fyrirtæki fái hvata til að gera slíkt hið sama. Við leggjum til að sveitarfélagið hafi forgöngu um samstarf við fyrirtæki og stofnanir um átak í aðgengismálum. Gangbrautir og göngustígar verði gerðir aðgengilegri þannig að hægt sé að komast um án hindrana. Útivistahringur sem VG og óháðir hafa á sinni stefnuskrá að útbúa verið gerður þannig úr garði að aðgengi sé tryggt fyrir alla. VG og óháðir hyggjast ráðast í enduruppbyggingu á sundlaug Sauðárkróks og í þeim endurbótum tryggja fötluðum aðgengi og aðstöðu við hæfi.
Þjónusta og aðbúnaður fatlaðs fólks í samfélaginu
Brýnt er að fjölga búsetuúrræðum, þjónustuíbúðum, auk félagslegs leiguhúsnæðis þar sem hjólastólaaðgengi er til staðar, svo ungt fatlað fólk geti flutt að heiman þegar þau óska þess. Einnig þarf að tryggja þá þjónustu sem þarf til að fatlað fólk geti lifað mannsæmandi lífi á sínum forsendum.
Við leggjum áherslu á að notendastýrð persónuleg aðstoð verði áfram raunhæfur möguleiki þeirra sem þess óska, þar sem einstaklingurinn sjálfur skipuleggi sína þjónustu út frá sínum forsendum og aðstæðum og ráði til þess sitt eigið starfsfólk. Reynslan hefur sýnt að þeir sem nú þegar nýta sér þetta þjónustuform njóta meiri lífsgæða en áður, meiri sveigjanleiki er til staðar í þjónustunni og þörfum þess fatlaða er mætt betur. Að okkar mati ætti þetta þjónustuform að vera til jafns við liðveislu, frekari liðveislu og þjónustu í sólarhringsbúsetu og verði viðurkennd og skilgreind sem einn af þeim þjónustumöguleikum sem í boði eru.
Við munum beita okkur aftur fyrir endurskoðun og hækkun á tekjumörkum vegna afslátta á fasteignagjöldum þannig að þær taki á hverjum tíma sem best mið af ráðstöfunartekjum og aðstæðum fólks, hvort sem um er að ræða fatlað fólk, öryrkja, eldri borgara eða aðra lífeyrisþega. Einnig verði sérstaklega horft til einstaklinga og fjölskyldna sem verða fyrir áföllum sem hafa veruleg áhrif á hagi þeirra.
Við viljum að allir íbúar Skagafjarðar njóti sömu lífsgæða og hafi sama rétt til innihaldsríks lífs og sú þjónusta sem í boði er nýtist öllum.
Íris Baldvinsdóttir og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir frambjóðendur á lista VG og óháðra Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.