Sæðingar meðal annars-Bloggsíðan sveito.is
Sigríður Ólafsdóttir, bóndi og ráðunautur í Víðidalstungu í Húnaþing vestra, opnaði um áramótin skemmtilega bloggsíðu þar sem hún leitast við að lýsa hinu daglega lífi í sveitinni. Feykir fékk leyfi til að vekja athygli á þessu bloggi og birta nýjustu færsluna, sem ber yfirskriftina Sæðingar meðal annars. Á blogginu er líka að finna orðabók sem útskýrir ýmis orð sem tengjast sauðfjárbúskap og upplýsingar um kindurnar á bænum. Gefum Sigríði orðið:
Ég er mögulega að byrja á dulítið öfugum enda að byrja á því að tala um fengitíma, en samt ekki. Það er þannig með vexti í sauðfjárbúskap að tímabil ársins tengjast öll saman og það er ekki hægt að sleppa neinu skrefi í búskapnum. Ég er samt að hugsa um að bíða með umræðu um líflömb þar til næsta haust og láta duga að nefna að líflömb eru þau lömb sem eru sett á, semsagt fara ekki í hvíta húsið.
Ég ætla hins vegar að tala um sæðingar núna, og kynbótastarf. Það er ekkert sérlega auðvelt að útskýra þetta í fáum orðum en ég ætla að reyna.
Kynbætur byggjast á því að að þeir einstaklingar sem lifa áfram séu betur gerðir, samkvæmt ákveðnum markmiðum fyrir hverja tegund, en einstaklingar í kynslóðinni á undan. Þetta er semsagt svona tilbrigði við kenningu Darwins um að þeir hæfustu lifi af, með þeim mun að í staðinn fyrir að náttúran velji hæfustu einstaklinga þá er það ræktandinn, maðurinn, sem velur þá.
Ræktun búfjár hefur reyndar verið stunduð frá örófi alda. Má t.d. sjá það á hinum ýmsu hrossakynjum og ekki síður hinum ýmsu hundakynjum.
Þegar verið er að rækta sauðfé er markmiðið að það sé vöðvamikið og fitusnautt. Sömuleiðis er markmið að hver kind eigi tvö lömb að jafnaði. Þá er það í opinberu markmiði sauðfjárræktar á Íslandi að leitast sé við að rækta sem heilbrigðasta einstaklinga, semsagt við bændur viljum ekki að kindurnar okkar þjáist vegna skammtíma gróðasjónarmiða í ræktun.
Búnaðarsambönd, sem eru landshlutasamtök bænda, halda úti sæðingastöðvum þar sem er til staðar úrval íslenskra hrúta. Úr þeim er tekið sæði sem er dreift til sauðfjárbænda um allt land, eftir pöntun.
Sauðfjárbændur sæða vissar ær yfirleitt í byrjun fengitíma. Það gerist þannig að að morgni dags er leitað að blæsmum, en það er annað orð yfir kindur sem eru með egglos. Leitin fer þannig fram að hrútur er teymdur um hverja kró og þá sést hvaða ær dilla sér framan í hrútinn og hverjar ekki. Blæsmurnar eru síðan merktar og settar sér í stíu, og seinnipartinn eða undir kvöld kemur sæðingamaður og frjóvgar þær. Enginn fær að koma nálægt þessu starfi nema viðkomandi hafi farið á námskeið og fengið skírteini þar að lútandi, og ær eru aldrei sæddar nema þær séu með egglos. Það er semsagt ekki verið að níðast á kindinum með þessu.
Ég hef stundum heyrt og séð fullyrðingar um að ef mannfólkið kæmi ekki að myndu hvorki ær né kýr verða óléttar á hverju ári. Mig langar að nota tækifærið og leiðrétta þennan misskilning en þetta er einfaldlega ekki rétt. Nægir að horfa á villtar hreindýrskýr úti í náttúrinni sem eignast kálf hvert einasta vor. Bæði kýr og kindur myndu eignast afkvæmi hvert vor þó mannkynsins nyti ekki við, það er einfaldlega eðli náttúrunnar. Eini munurinn er sá að mannkynið ákvarðar hvaða karlkyni þær fá við og sér um velferð þeirra í leiðinni.
Ég á kind sem heitir Skræpa. Hún er gráflekkótt, ákaflega skrautleg og var jafnframt ákaflega lítil haustið eftir að hún fæddist. Hún hefur sennilega misst móður sína einhvern tíma um sumarið og verið lítil vegna þess. Hún var því sett á eingöngu fyrir litinn, þó að ætternið gæfi ágætis tilefni til að hún yrði góð kind. Hún fékk ekki að fara á stefnumót fyrsta veturinn og var almennt ekki gert ráð fyrir að hún myndi skila neinu til komandi kynslóða nema mögulega gráum flekkjum. Hún er hins vegar af sæðingakyni aftur í ættir og þegar hún eignaðist lamb tveggja vetra kom í ljós að hún er mjólkurlagin með eindæmum.
Fyrsta lambið hennar, hún Gola, kom til vegna sæðinga. Gola er nefnilega undan sæðingastöðvarhrútnum Grábotna. Gola er besta kindin mín í dag, undan ofurmjólkurkindinni Skræpu og ofur kynbótahrútnum Grábotna. Gola mín er alltaf tvílembd, mjólkar virkilega vel og skilar þar að auki mislitum lömbum þegar kærastavalið gefur tilefni til.
Skræpa mín hefur semsagt alla tíð, síðan hún var sett á fyrir litinn, sýnt að það voru engin mistök að setja hana á. Ræktunin aftur í ættir skilaði sér vel; hún eignast lömb, hún mjólkar þessum lömbum og hún hugsar um þau allt til hausts.
Svona eru kynbæturnar skemmtilegar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.