Ríkisstjórn Vg og Samfylkingar með alblóðugan hníf í Skagafirði

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vg verður eflaust minnst fyrir ósvífnustu kosningasvik sögunnar.  Stjórnin þóttist ætla að slá skjaldborg um heimilin fyrir kosningar en efndirnar voru að bera fjölskyldurnar út og að afskrifa lán til útrásarhyskisins og tryggja að það haldi yfirráðin yfir fyrirtækjunum.

 Fjárlög Steingríms J. Sigfússonar hafa í för með sér niðurskurð um liðlega 5%  til þess að ná niður fjárlagahallanum.  Niðurskurðurinn virðist bitna mun harðar niður á stofnunum ríkisins á landsbyggðinni en höfuðborginni og er óhætt er að fullyrða að niðurskurðarhnífurinn sé alblóðugur hér í Skagafirði.

Fjárframlög til Byggðastofnunar verða lækkuð um liðlega 21%  og lækkuð fjárframlög til Náttúrustofunnar eru upp á 50%.  Háskólanum á Hólum verður gert að skera niður um 7,3% sem er helmingi meiri niðurskurður en Listaháskólanum í Reykjavík er ætlaður.

Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra stendur fyrir svakalegri aðför að heilbrigðisþjónustunni í Skagafirði en Heilbrigðisstofnunin í Skagafirði er ætlaða að draga saman um þriðjung af starfsemi sinni.

Margir, þar á meðal ég, hafði gert mér vonir um að Guðbjartur sem er víst svo undarlegt sem það nú er þingmaður kjördæmisins og hefði þess vegna mátt ætla að heilbrigðisráðherra sýndi mikilvægri starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar og Skagfirðingum meiri sanngirni og skilning.  Guðbjartur margtuggði það í aðdraganda síðustu kosninga að gæta yrði jafnvægis á milli Höfuðborgar og landsbyggðar. Sömuleiðis benti hæstvirtur ráðherra Samfylkingarinnar ítrekað á þá staðreynd að þenslan hefði orðið á Höfuðborgarsvæðinu en samdráttur orðið víða á landsbyggðinni.

Affarasælast er fyrir Skagfirðinga sem og þjóðina alla að ríkisstjórnin sem hefur svikið nánast öll sín fyrirheit, fari sem fyrst frá völdum og það áður en að frumvarpið verður að lögum.

Sigurjón Þórðarson

Sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir