Ríkissjóður tapar líka

Það er merkilegt hve sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar hefur gjörsamlega snúist upp í andhverfu sína. Hún var sett fram með tiltekin markmið að leiðarljósi. Nú er komið  í ljós að stefnan  vinnur í veigamestu atriðunum gegn þessum markmiðum! Þetta er ótrúlegt klúður og sýnir í raun fullkomið gjaldþrot þeirrar hugmyndafræði í sjávarútvegsmálum sem ríkisstjórnin lagði af stað með.

Í fyrstunni boðaði ríkisstjórnin fyrningu  aflaheimilda á 20 árum. Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri gerði úttekt á þessari stefnu í umboði stjórnskipaðrar nefndar, svo kallaðrar sáttanefndar. Sú athugun   leiddi í ljós að þessi sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar myndi leiða til gjaldþrots helmings sjávarútvegsfyrirtækja í landinu.

Og að hugsa sér. Ríkisstjórn setur inn í sinn eigin stjórnarsáttmála ákvæði sem hefði í för með sér slíkt og þvílíkt. Og það er gert án þess að athugað sé um afleiðingarnar; ekki fyrr en eftir á.

Neikvæðar afleiðingar
Ný sjávarútvegsstefna birtist svo í sjávarútvegsfrumvörpum ríkisstjórnarinnar nú á vordögum. Hvorki skorti fögur né háleit markmið.

Nýja sjávarútvegsstefnan átti til dæmis að bæta hag sjávarútvegsins. Enginn deilir lengur um að það gerir hún ekki. Þvert á móti. Helstu talsmennirnir ganga jafnvel svo langt að segja slíkt sé  ekki endilega markmiðið. Þá vitum við það.

Það var ætlunin að sjávarútvegsfrumvörpin styddu við byggðir. Nú hafa komið fram órækar upplýsingar úr sjávarútvegsbyggðum sem sýna að verði sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar lögfest, þá mun það veikja byggðina.

Mjög var geipað um að í stefnumótun ríkisstjórnarinnar væri nýliðun að greininni auðvelduð. Nú hefur hins vegar verið sýnt fram á að hún verður torvelduð; jafnvel gerð ómöguleg. .

Ríkissjóður tapar
Og loks er það eitt, sem kannski er ótrúlegast af öllu.

Leiðarstefið í sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar hefur verið að eigandi fiskveiðiauðlindarinnar sé ríkið – og um það er ekki mikill ágreiningur. En síðan hefur verið sagt að  eðlilegt sé að eigandi auðlindarinnar fái sem mestan afrakstur af nýtingu hennar. Hafa hagfræðingar reiknað út það sem kallað hefur verið auðlindaarður og á þeim grundvelli hafa síðan verði settar fram tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar um að  stærri hluti hans renni til eigandans, ríkisins, í gegn um ríkissjóð, með meiri gjaldtöku af útgerðum.

En þá gerist það ótrúlega. Hið nýja fyrirkomulag sem ríkisstjórnin vill innleiða er svo vitlaust og óhagkvæmt að afrakstur ríkisins af fiskveiðiauðlindinni mun minnka!

„Þetta sem helst hann varast vann...“
Hér eiga því við orð sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar: „Þetta sem helst hann varast vann/ varð þó  að koma yfir hann.“

Auðlindagjaldið sem sjávarútvegurinn einn greiðir, þeirra sem auðlindir nýta, er reiknað af vergum hagnaði.  Út er reiknað hversu mikið stendur eftir þegar almennur rekstrarkostnaður hefur verið dreginn frá heildartekjum. Frumvarp ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir því að 19% þessa rynni sem afgjald til ríkisins. Miðað við nýjustu fáanlegu gögn er vergi hagnaðurinn 32 milljarðar. 19% afgjald, þannig út reiknað, gefur ríkissjóði því í aðra hönd um 6 milljarða króna á ári. - Að óbreyttu.

En nú er ekki nema hálfsögð sagan. Frumvörp ríkisstjórnarinnar setja nefnilega , stórt strik í þennan útreikning.

Ríkissjóður tapar milljörðum á sjávarútvegsstefnunni
Eins og kunnugt er var ákveðið, eftir að búið var að festa stefnu ríkisstjórnarinnar í frumvarpsbúning,  að láta skoða afleiðingarnar. Spyrja sem sagt eftir á hvað stefnumörkunin hefði í för með sér. Til verksins var valinn hópur sex valinkunnra hagfræðinga, með ólíkan bakgrunn og víðtæka þekkingu. Niðurstaða þeirra var athyglisverð. Þeir komust að því að yrði sjávarútvegsfrumvarp ríkisstjórnarinnar að lögum, myndi hagur útgerðarinnar versna um 20%. Verst myndi það bitna á nýrri útgerðum, nýliðum og einstaklingsútgerðum.

Nógu alvarlegt væri þetta fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Einkanlega þau skuldugri. Afleiðingarnar yrðu uppstokkun, aukin samþjöppun og byggðaröskun og veiking þeirra atvinnugreinar sem einkanlega starfar á landsbyggðinni.

Og viti menn. Ríkissjóður sjálfur yrði af milljarða tekjum. Áformin um að sjávarútvegurinn skilaði auknu afgjaldi til eiganda auðlindarinnar,  rynni út í sandinn. Hið gagnstæða mun gerast. Ríkissjóður tapar tekjum.

20% lækkun vergs hagnaðar hefði nefnilega í för með sér að veiðigjaldið til ríkisins myndi árlega lækka um sama hlutfall, eða um 1,2 milljarða króna, miðað við þær forsendur sem frumvarpið gengur út frá. Það þýðir lækkun um 6 milljarða á fimm árum.

Að skjóta sig í fótinn
Og hvernig myndi þá verða brugðist við? Við þekkjum það úr fari núverandi ríkisstjórnar. Skattprósentan yrði einfaldlega hækkuð. Hana yrði að hækka um 20% til þess að skila sömu tekjum og áætlaðar höfðu verið. Afleiðingarnar yrðu verri afkoma fyrirtækjanna og gætu orðið mjög þungbærar fyrir þá sem nýjastir eru í greininni og þar af leiðandi að jafnaði skuldugri.  Þannig legðum við af stað inn í vítahring, sem enginn veit hvert leiðir okkur.

Kaldhæðnislegt og nöturlegt er að í þessa  miklu baslferð var farið, til þess að veita auknu fjármagni út úr sjávarútveginum inn í ríkissjóð. En þegar upp er staðið þá tapar ríkissjóður líka á öllu saman, rétt eins og sjávarútvegurinn, byggðirnar, sveitarfélögin og þjóðfélagið í heild.

Þetta er sennilega skýrasta dæmið um það þegar vanhugsað flan leiðir til þess að menn skjóta sig í fótinn. Hefja eiginlega skothríð á sinn eigin fót. Hér er því bara eitt að gera. Byrja upp á nýtt og skoða endinn strax í upphafi.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir