Ráðning sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar
Frétt sem birtist á feyki.is og ruv.is í morgun þess efnis að þörf sé á að auglýsa starf sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagafjarðar laust til umsóknar þar sem leit meirihlutans að sveitarstjóra hefur ekki borið árangur er mjög áhugaverð, einnig kom fram í fréttinni að búið væri að auglýsa starfið.
Skynsamlegt hefði verið að mínu mati að auglýsa starf sveitarstjóra laust til umsóknar strax að loknum kosningum líkt og fjölmörg sveitarfélög gerðu með góðum árangri, en ekki neyðast til að auglýsa líkt og nú blasir við.
Hvað er meirihluti Framsóknar og Vinstri grænna að hugsa ! Hvaða vandræðagangur er þetta ??
Í samþykktum sveitarfélagsins er það verkefni sveitarstjórnar að ákveða stjórnkerfi sveitarfélagsins og ráða sveitarstjóra og helstu starfsmenn sveitarfélagsins skv. V. kafla sveitarstjórnarlaga og V. kafla samþykktar sveitarfélagsins, sem hljóðar svo :
„Sveitarstjórn ræður sveitarstjóra. Gera skal skriflegan ráðningarsamning við sveitarstjóra þar sem m.a. skal kveðið á um ráðningartíma hans, kaup og kjör. Ráðningarsamningur skal staðfestur af sveitarstjórn“.
það er á ábyrgð meirihlutans að leiða vinnu að ráðningu sveitarstjóra enda er meirihlutinn með atkvæðavægi til þess og ekkert við því að segja. það er aftur á móti einkennilegt að meirihlutinn hefur varist allra frétta af því hvernig sú vinna er hugsuð eða fer fram, það hefur a.m.k. ekki borið árangur að spyrja oddvita meirihlutaflokkana.
Nú ber svo við að ég sem sveitarstjórnarfulltrúi les þessar fréttir á netinu líkt og aðrir sveitungar mínir. Það þótti ekki ástæða til að upplýsa sveitarstjórnarfulltrúa um gang mála hvað þá að taka málið fyrir á byggðaráðsfundi sem haldnir eru 1 sinni í viku en var aflýst í þessari viku þar sem það lágu engin mikilvæg mál fyrir að mati formanns byggðráðs.
Meirihlutanum þykir sem sagt ákvörðun um að auglýsa starfið til umsóknar ekki mál sem þurfi að fjalla um og taka ákvörðun í byggðaráð sem fer með umboð sveitarstjórnar í sumarfríi þess.
Það er leitt að mínu mati að það hafi ekki farið fram opin umræða meiri – og minnihluta sveitarstjórnar um ráðningarferlið og stöðu mála. Í umræddri frétt kom fram að mikil vinna hefur verið lögð í það að ræða við fólk og margir tilkallaðir, því frekar hefði verið þörf á því að hafa opna lýðræðislega umfjöllun um ferlið og upplýsa sveitarstjórnarfulltrúa um gang mála.
Það er alveg ljós að meirihluti Framsóknar og Vinstri grænna hafa atkvæðavægi til að ákveða hver verður sveitarstjóri en það má ekki ganga fram hjá samþykktum sveitarfélagsins.
Ég fagna því að starf sveitarstjóra sé auglýst laust til umsóknar og hefði samþykkt tillögu þess efnis ef hún hefði verið lögð fram í byggðaráði, en hefði talið rétt að fá ráðningarstofu að sjá um umsóknarferlið.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar í Skagafirði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.