Prófessorsstaða Jóns Sigurðssonar
Á morgun, 17. júní, verða 200 ár liðin frá fæðingu sjálfstæðishetjunnar góðu, Jóns Sigurðssonar. Af því tilefni samþykkti Alþingi á sérstökum hátíðarfundi í gær þingsályktun<http://www.althingi.is/altext/139/s/1787.html> um að stofnuð verði prófessorsstaða við Háskóla Íslands tengd nafni Jóns Sigurðssonar.
Stefnt er að því með tillögunni að starfsstöð prófessorsins og starfsskyldur verði á Vestfjörðum við rannsóknasetur Háskóla Íslands og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða. Við skipan í stöðuna verður farið að kröfum Háskóla Íslands um prófessorshæfi og tekið mið af því hvernig áætlun umsækjenda um rannsóknarstarf og kennslu tengist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og efli þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
Það er einkar vel við hæfi að minnast 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar<http://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_Sigur%C3%B0sson_(forseti> með þessum hætti. Jón Sigurðsson skipar sérstakan heiðurssess í íslenskri sögu. Sem forustumaður Íslendinga í þeirri þjóðfrelsisbaráttu sem hófst um miðbik 19. aldar greyptist persóna hans og minning í þjóðarvitund Íslendinga. Fæðingardagur hans var valinn sem þjóðhátíðardagur hér á landi og lýðveldisstjórnarskráin látin taka gildi 17. júní 1944.
Jón Sigurðsson, var borinn og barnfæddur Vetfirðingur, fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 1811. Hann var þingmaður Vestfirðinga í 35 ár, tók sæti á Alþingi árið 1844, en gegndi jafnhliða öðrum störfum í Kaupmannahöfn. Á þeim tíma kom Alþingi einungis saman annað hvert ár, sex vikur í senn (já, þá voru aðrir tímar), svo Jón gat búið í DanmörkuKaupmannahöfn og gegnt þingmennsku samhliða öðrum störfum. Hann var forseti Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn frá 1851 og af því hlaut hann viðurnefnið "forseti", þótt hann hafi einnig gegnt forsetastörfum á Alþingi um skeið.
Háskóli Íslands hefur markvisst stefnt að því síðustu ár að færa rannsókna og fræðastarfsemi út á landsbyggðina. Nú eru níu rannsókna- og fræðasetur starfandi á vegum HÍ víðsvegar um land. Setrin hafa orðið mikil lyftistöng fyrir fræða- og menningarstarf í þeim byggðum þar sem þau eru, eins og skýrsla um starfsemi þeirra á árinu 2010 sýnir. Þar kemur skýrt fram hversu vel akademískir starfsmenn rannsóknasetranna tengjast deildum, nemendum og öðrum kennurum við Háskóla Íslands, bæði í kennslu- og rannsóknastarfi.
Hér á Vestfjörðum hefur verið að þróast háskóla- og vísindasamfélag undanfarin ár. Nú eru tvö rannsókna- og fræðasetur starfrækt hér fyrir vestan á vegum Háskóla Íslands, í Bolungarvík og á Patreksfirði. Er þá ónefnt Háskólasetur Vestfjarða sem sprottið er upp af Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði þar sem fyrsti vísir að háskólastarfi Vestfirðinga varð til.
Fyrir þingmann Vestfirðinga - og manneskju sem hefur helgað drjúgann hluta starfsæfi sinnar fræðastarfi og mennatamálum, ekki síst hér vestra - er það einkar gleðilegt að fá að standa að samþykkt tillögu um prófessorsstöðu Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands með starfsaðstöðu á Vestfjörðum. Minningu Jóns forseta er með þessu sómi sýndur. Staðan mun verða aflvaki vaxandi fræðasamfélags hér á heimaslóðum Jóns, og til góðs fyrir rannsóknir sem tengjast lífi hans og starfi. Hún mun verða lyftistöng fyrir starfsemi minningarsafns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri, m.a. fyrir sumarháskólann sem haldinn er þar árlega. Ekki síst má búast við að staðan muni verða styrkur fyrir sagn- og stjórnmálafræðirannsóknir á Vestfjörðum, þar sem nú þegar er unnið að ýmsum hug- og félagsvísindaverkefnum.
Til hamingju Háskóli Íslands. Til hamingju Alþingi Íslendinga. Til hamingju Vestfirðingar.
Dr. Ólína Þorvarðardóttir,
Alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.