Okkar litla og góða samfélag
Þrátt fyrir áratuga baráttu erum við enn að glíma við mál eins og aðgengismál, aðgengismál sem löngu eru viðurkennd af þjóðfélaginu en samt iðulega hundsuð, ótrúlegt en satt. Í fyrrasumar var verið að vinna við gangbrautagerð á aðalbraut fyrir neðan hverfið mitt, komið var að máli við byggingafulltrúa um að örugglega yrði gengið þannig frá gangstéttinni að fólk í hjólastól kæmist auðveldlega upp á hana.
Loforð var gefið en ekki efnt, og svörin voru einfaldlega þau að verkfræðistofan sem sá um að teikna upp framkvæmdina hafði ekki teiknað hallann frá götunni upp á gangstéttina eins og lög gera ráð fyrir, þeir höfðu ekki farið að reglum. Byggingaverktakinn sem byggði gangstéttina hefði átt að hafa þekkingu á því að gangstéttir yrðu að vera færar hjólastólum, en hann sá þetta ekki. Byggingafulltrúinn sem talað hafði verið við og hafði skilið málið vel hafði heldur ekki gert neinar athugasemdir við gangstéttargerðina.
Engum hafði dottið í hug að t.d. ég sem kemst ekki öðru vísi um nema á hjólastól eða í bíl gæti þurft að nota gangstéttina í mínu eigin hverfi. Í okkar litla samfélagi, sem að mínu mati samanstendur af frábæru fólki sem allt er að vilja gert að hjálpa náunganum þegar skakkaföll verða í lífi hans, er svo ótrúlegt að sjá að enn í dag sé verið að framkvæma og byggja anddyri, gangstéttar, fordyri, salerni og íbúðir sem ekki standast staðla.
Í dag eiga öll opinber mannvirki og ég tala nú ekki um gangstéttir og opinberar stofnanir og verslanir að vera byggð þannig að fólk hvort sem það er líkamlega heilt, þarf að ganga við staf, göngugrind eða fara um á hjólastól komist þar um án þess að þurfa að biðja um hjálp til að komast leiðar sinnar. Í dag árið 2011 finnst mér þetta svo sanngjörn og sjálfsögð krafa. Ég vil því beina þeim tilmælum til þeirra sem að þessum framkvæmdum standa hvort sem það eru hönnuðir, stjórnendur eða verktakar og ég tala nú ekki um kaupendur verkanna að bíða ekki með að laga þessa hluti, sjálft getur þetta fólk orðið fyrir þeim hörmungum að þurfa að nota t.d. hjólastól einhvern tímann á lífsleiðinni, til að komast leiðar sinnar og þá verður lítið gaman fyrir það að þurfa að horfa upp á sín eigin verk verða þeim daglegur farartálmi í svo mikið erfiðara lífi.
Ég varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu um daginn að þurfa að láta bera mig inn í banka hér í bæ og bera mig út úr honum aftur. Aðgengi fatlaðra að Arion banka er algjörlega óviðunandi og með ólíkindum hvernig gengið er frá aðalinngangi. Mér fannst ég niðurlægð þegar ég þurfti að snúa frá aðalinngangi, hjóla að hurð sem var við hliðina og kalla inn um hana eftir hjálp til að komast inn. Þröskuldurinn var svo hár engin leið var fyrir mig að komast þar inn heldur hjálparlaust. Þetta var vond upplifun og svo óþörf.
Ég ætla að ljúka þessu á að hrósa Tryggingastofnuninni hér í bæ, því loksins, loksins er búið að merkja bílastæði fyrir fatlaða þar fyrir utan og setja fláa af planinu upp á gangstéttina, þannig að ég get komist þarna um án vandkvæða. Til að fullkomna aðgengið þyrfti að gera bragabót á hurðinni inn í húsið því talsvert afl þarf til að komast þar um og verður hún fólki með t.d. staf eða göngugrind farartálmi. Væri t.d. hægt að setja hurðaopnara eins og er upp á heilbrigðisstofnun?
Margt hefur verið gert hér í bæ sem miðar að því að bæta aðgengi svo fólk eins og ég komist leiðar minnar eins og annað fólk, en betur má ef duga skal. Enn eru ótal mörg tækifæri til að bæta og laga.
Sameinumst um að gera sveitarfélagið okkar leiðandi í aðgengismálum.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir
manneskja í okkar litla og góða samfélagi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.