Pétur Arason. MYND AF BLÖNDUÓS.IS
Þá er sveitarfélagið Húnabyggð orðið stærra og öflugara eftir að íbúar Skagabyggðar og Húnabyggðar samþykktu þann 22. júní í íbúakosningu að sameina sveitarfélögin. Eins og nefnt hefur verið þá býr þetta til ýmiss konar samlegðaráhrif sem koma öllum á svæðinu til góða. Það mun að sjálfsögðu taka tíma að keyra þetta saman og eins og allir vita stendur Húnabyggð út í miðri á með þá sameiningu sem tók gildi við stofnun Húnabyggðar. Það verður því í aðeins fleiri horn að líta á meðan þessi formlega sameining gengur yfir og ekki ólíklegt að það taki allt kjörtímabilið að slípa hlutina saman í stjórnsýslunni og rekstrinum hvað þessar tvær sameiningar varðar.
Það var ánægjulegt að sjá hversu afgerandi kosningin var, en þátttaka í Skagabyggð var ótrúlega góð eða 92,5% og um 75% þeirra voru fylgjandi sameiningu. Í Húnabyggð var kjörsókn tæp 40% og 90% þeirra sem greiddu atkvæði voru fylgjandi sameiningu. Það er því óhætt að segja að sameiningin hafi fengið afgerandi fylgi og íbúarnir greinilega fylgjandi því að vera saman í einu sveitarfélagi. Húnabyggð er nú að stækka verulega í landrými og verður eftir þessa sameiningu um 4.500km2 og íbúarnir verða nú um 1.350 miðað við íbúatölur 1. janúar 2024.
Það er rétt að þakka öllu því góða fólki sem hefur lagt á sig mikla vinnu samhliða þessu sameiningarferli, en sameiningarnefndin, kjörstjórnirnar, ráðgjafar og ýmsir aðrir hafa komið að þessu máli síðan að viðræður hófust í byrjun árs. Ég held að það sé á engan hallað að þakka sérstaklega oddvitum sveitarfélaganna þeim Erlu Jónsdóttur og Guðmundi Hauki Jakobssyni sérstaklega fyrir þeirra óeigingjörnu vinnu við þessa sameiningu. Erla hefur staðið í stafni frá byrjun enda kom frumkvæði þessarar sameiningar frá Skagabyggð en saman hafa þau unnið þrotlausa vinnu við það að verja og sækja hagsmuni svæðisins gangvart yfirvöldum tengt þessari sameiningu. Sameiningunni fylgja ýmiss loforð yfirvalda um aðstoð og framkvæmdir og nú mun reyna á að fá þeim loforðum framfylgt. Vinnunni er því hvergi nærri lokið og þessi vinna bak við tjöldin sem er almenningi ósýnileg fylgir mikið álag og þrautsegja þar sem berjast þarf með kjafti og klóm fyrir hagsmunum íbúa svæðisins.
„Þetta er virkilega ánægjuleg niðurstaða. Þetta er það sem búið er að vera að vinna að og það er gott að fá skýrar og góðar niðurstöður. Enn og aftur sýnum við vilja í verki og við ætlumst til þess að stjórnvöld geri hið sama og klári á haustþingi að tryggja með lagasetningu að undanþágur á fasteignamatsskyldu orkufyrirtækja verði afnumdar svo sveitarfélagið hafi þær tekjur sem því ber.“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar.
„Það er búinn að vera langur aðdragandi hjá okkur í þessu máli og við höfum vandað okkur og hlustað á íbúana. Við lögðum mikla áherslu á að sjónarmið unga fólksins kæmu sterkt í gegn þó auðvitað skipti álit allra miklu máli. En unga fólkið er framtíðin og ég veit að þau eru full bjartsýni og það er ég líka. Ég er gríðarlega ánægð að niðurstaðan sé svona ótvíræð með met kjörsókn í Skagabyggð og ég hlakka til framhaldsins.“ segir Erla Jónsdóttir oddviti Skagabyggðar.
Við erum bjartsýn og trúum að þessi sameining verði til þess að auka enn á sóknarfæri svæðisins og ef allt er eins og það á að vera þá skín sólin nú á fleiri íbúa í Húnabyggð. En ekkert gerist af sjálfum sér og það verður vinna að ná öllum saman í lið þar sem við/þið viðhorf víkur fyrir því að við erum öll í sama liðinu. Formlega mun Skagabyggð verða hluti af Húnabyggð í nýju sameinuðu sveitarfélagi 1. ágúst 2024 og nú tekur við tæknileg vinna við að sameina sveitarfélögin hvað varðar þjónustu og rekstur.
Í tilefni dagsins fór ég í heimsókn í Skagabyggð og bauð mér í heimsókn til Karólínu í Hvammshlíð. Ég mætti henni þar sem hún var að fara að gefa lambám út í hólfi. Við tókum stutt spjall og hún var ánægð með að sameiningin var samþykkt. Hún var ekki bjartsýn á að skaflinn í gilinu fyrir ofan bæinn færi fyrr en seint í júlí en var að öðru leiti bjartsýn á framhaldið í nýju sveitarfélagi. Hún er eins og flestir vita mikill snillingur og hefur þrjá hunda sér til hjálpar við bústörfin. Ekki veit ég hvort að hún er búinn að kenna þeim að keyra bílinn í gegnum hliðin þegar hún opnar þau, en það leit samt út fyrir að þeir væru klárir í verkefnið.
Við bjóðum Karólínu og öllum öðrum íbúum Skagabyggðar velkomin í Húnabyggð!
Óska okkur öllum til hamingju með þetta og við förum brosandi út í nýja viku enda engin ástæða til annars.
Með góðri kveðju,
Pétur Arason, sveitarstjóri Húnabyggðar
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.