Mótmælum aðför að Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki
Í Skagafirði eru nokkrar mjög mikilvægar forsendur byggðar. Þar má nefna öflugt atvinnulíf, Fjölbrautaskólann, margþætta þjónustu sveitarfélagsins og ekki síst Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Það er af þessum sökum sem að á undanförnum árum hefur nokkuð tekist að halda sjó í Skagafirði á meðan flest byggðarlög utan höfuðborgarsvæðisins hafa þurft að glíma við margvísleg vandamál og verulegan fólksflótta. En úr þessu á nú að bæta!
Í nýbirtu fjárlagafrumvarpi er vegið þannig að Heilbrigðisstofnuninni að hún verður líklega aldrei söm ef tillögur ráðherra ná fram að ganga. Ég er ekki sérfræðingur í rekstri heilbrigðisstofnana, en veit þó að hlutfall launa í rekstri er hátt og það segir sig sjálft að þriðjungs niðurskurður, hlýtur að leiða til þess að segja þarf upp tugum starfsmanna og að þjónustan dragist mjög mikið saman. Á Feyki.is í morgun er haft eftir framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar að líklega muni sjúkrahúsþjónustan og komur sérfræðilækna leggjast af.
- Þetta þýðir að við íbúarnir þurfum að sækja þá þjónustu sem skorin verður af annað hvort til Akureyrar eða Reykjavíkur. Það þýðir að aukinn kostnaður vegna ferða, vinnutaps og uppihalds mun lenda á íbúum héraðsins.
- Þetta þýðir að öryggi þjónustunnar mun í mörgum tilfellum minnka.
- Þetta þýðir að atvinnulausum í héraðinu mun fjölga verulega og mun ef ekkert annað gerist leiða til fólksfækkunar.
- Þetta þýðir að fasteignaverð í héraðinu mun lækka verulega.
- Þetta þýðir að tekjur sveitarfélagsins munu skerðast sem aftur leiðir af sér minnkandi getu til að halda úti þjónustu og fara í nauðsynlegar framkvæmdir.
Fleira er örugglega hægt að telja upp en í stuttu máli þýðir þetta að Skagafjörður verður lakari búsetukostur en hann var áður.
Nú er meira en nóg komið. Þessar tillögur eru aðför að lífskjörum og byggð í Skagafirði. Við íbúar Skagafjarðar þurfum að mótmæla þessu kröftuglega því að ég trúi ekki að íbúar Skagafjarðar ætli að láta þetta yfir sig ganga. Boða verður til borgarafundar vegna málsins þar sem ráðherrann og þingmaður kjördæmisins, Guðbjartur Hannesson, verður krafinn um að mæta og standa fyrir máli sínu ásamt öðrum þingmönnum kjördæmisins. Hringjum í þingmennina, sendum þeim SMS eða tölvupóst þar sem við segjum þeim hvað okkur finnst um þessar fyrirætlanir. Þeir eru í vinnu hjá okkur.
Sigurður Árnason
Listi yfir netföng og símanúmer þingmanna kjördæmisins – upplýsingar teknar af vef Alþingis og heimasíðum viðkomandi ráðuneyta:
Guðbjartur Hannesson heilbrigðisráðherra, gudbjarturh@althingi.is gsm:899-7327
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra jb@althingi.is gsm:862-6170
Ásbjörn Óttarsson asbjorno@althingi.is gsm:893-2395
Ásmundur Einar Daðason asmundurd@althingi.is gsm:896-1231
Einar K. Guðfinnsson einarg@althingi.is gsm: vantar
Guðmundur Steingrímsson gudmundurs@althingi.is gsm:695-6780
Gunnar Bragi Sveinsson gunnarbragi@althingi.is gsm:821-7070
Lilja Rafney Magnúsdóttir lrm@althingi.is gsm:866-2457
Ólína Þorvarðardóttir olinath@althingi.is gsm:892-3139
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.