Mikilvægt að gefa ekki eftir í makríldeilunni
Makríll skilaði þjóðarbúinu rúmum 24 milljörðum króna í útflutningsverðmæti á síðasta ári. Makríllinn kemur í íslenska fiskveiðilögsögu og eykur þyngd sína um 650 þúsund tonn, samkvæmt orðum sjávarútvegsráðherra Steingríms J. Sigfússonar í Fréttablaðinu þann 9. júlí.
Forveri Steingríms J. í embætti sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, ákvað að makrílkvóti Íslands skyldi vera 145 þúsund tonn í ár. Ákvörðun Jóns var tekin í ágreiningi við Evrópusambandið sem heldur fram rétti írskra og skoskra sjómanna að veiða makrílinn. Íslensk stjórnvöld hafa haldið fram þeirri kröfu að um 16 til 18 prósent af heildarmakrílkvóta komi í hlut okkar. Evrópusambandið telur hæfilegt að Ísland fái 3 til 5 prósent kvótans.
Skipti út samningamanni Íslands til að friða ESB
Áður en Steingrímur J. Sigfússon settis í stól sjávarútvegsráðherra um síðustu áramót var fast haldið á hagsmunum Íslands í makríldeilunni við Evrópusambandið. Þrautreyndur samningamaður okkar, Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðingur, leiddi samninganefnd Íslands. Eftir að Steingrímur J. tók við af Jóni Bjarnasyni sem sjávarútvegsráðherra var umboð Tómasar afturkallað og nýr formaður samninganefndarinnar skipaður. Í erlendum fjölmiðlum, t.d. www.fishingnewseu.com, var haft eftir sendiherra Íslands í Bretlandi, Benedikt Jónssyni, að breyting á formennsku samninganefndar Íslands væri merki um aukinn ,,samningsvilja” af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Benedikt sendiherra átti fund í London með breskum þingmönnum fyrir rúmum mánuði, þann 13. júni, til að kynna breyttar áherslur íslenskra stjórnvalda gagvart Evrópusamsambandinu. Ríkisstjórnin hefur ekki kynnt íslenskum almenningi hvað það felur í sér fyrir þjóðina að Steingrímur J. vill friða Evrópusambandið. Um eitt þúsund manns hafa atvinnu af makrílveiðum hér á landi og skyldi ætla að það fólk ætti kröfu á upplýsingum frá stjórnvöldum sem varða lifibrauðið.
Náinn samherji Steingríms J., Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar, skrifaði grein í vefritið Smuguna um makríldeiluna skömmu eftir fundinn í London. Þar segir Árni Þór að væntanlegir samningar við Evrópusambandið verði að taka mið af ,,verndunarsjónarmiðum.” ESB-sinninn Árni Þór lætur þess ógetið að um 80 prósent af fiskistofnum Evrópusambandsins eru ofveiddir. Þegar Evrópusambandið talar um ,,verndun” í viðræðum við Íslendinga er meining sambandsins sú að vernda makrílinn fyrir veiðum Íslendinga svo að sjómenn í ESB-ríkjum fái meira í sinn hlut.
ESB umsóknin er strand meðan makríldeilan er óleyst
Ástæða þess að Steingrímur J. er jafn viljugur og raun ber vitni að þýðast Evrópusambandið er að ESB-umsókn Íslands er strand á meðan makríldeilan er óleyst. Strax árið 2010 var öllum ljóst að ESB-umsókn Samfylkingarhluta ríkisvaldsins væri komin í gíslingu. Þá um haustið sendu þrír framkvæmdarstjórnarmenn ESB íslenskum ráðherrum bréf vegna makríldeilunnar. Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri, Štefan Füle stækkunarstjóri og Karel de Gucht viðskiptamálastjóri skrifðu sameiginlega undir bréfið til að leggja áherslu á tengsl ESB-umsóknarinnar og deilunnar um makrílveiðar.
Evrópusambandið hótar Íslendingum viðskiptaþvingunum ef við gefum ekki eftir. Undir þessum kingumstæðum ættu íslensk stjórnvöld að standa í lappirnar og afturkalla ESB-umsóknina. En því er ekki að heilsa. Öðru nær: á næsta samninganefndafundi um makríldeiluna, sem verður í haust, ætlar Steingrímur að öllum líkindum að tilkynna um uppgjöf ríkisstjórnar Íslands fyrir Evrópusambandinu.
Ásmundur Einar Daðason
Alþingismaður Framsóknarflokksins
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.