Mikilvægi kosninga til stjórnlagaþings
Næstkomandi laugardag, þann 27. nóvember, fara fram kosningar til stjórnlagaþings. Kosningarnar eru einstæðar í sögu Íslands og hefur mikið verið fjallað um fyrirkomulag þeirra og það gagnrýnt, bæði í fjölmiðlum og manna á milli. Hefur m.a. verið bent á að fyrirkomulagið sé flókið, kosningarnar séu illa undirbúnar - jafnvel misheppnaðar - og margt fleira.
Með þessum pistli er ekki ætlun mín að taka undir eða mæla gegn þessari gagnrýni. Ætlun mín er að benda á að kosningarnar fara fram óháð þessari gagnrýni. Ennfremur að benda á að kosningarnar gefa okkur afar mikilvægt tækifæri til þess að stuðla að því að við fáum nýja og betri stjórnarskrá.
Með hliðsjón af tilgangi kosninganna er brýnt að sem flestir Íslendingar taki þátt í þeim, kjósi og komi þannig sjónarmiðum sínum á framfæri. Stjórnarskrá Íslands snertir þjóðina alla. Hún er engum Íslendingi óviðkomandi. Stjórnarskráin er rétthærri öllum öðrum lögum. Hún leggur grunninn að stjórnarfari á Íslandi, skipan Alþingis, framkvæmdavalds og dómsvalds, og mælir fyrir um þau grundvallarmannréttindi sem bæði okkur þjóðinni og ríkisvaldinu ber að virða. Það getur því ekki verið gott fyrir þjóðina að sniðganga kosningarnar - þrátt fyrir alla þá vankanta sem benda má á á fyrirkomulagi þeirra. Það er því nauðsynlegt að hvetja alla Íslendinga til þess að fara og kjósa.
Ég er í framboði til stjórnlagaþings. Tilgangur minn með framboðinu er ekki sá að sjá til þess að núgildandi stjórnarskrá verði kollvarpað og að samfélaginu verði þannig umbylt. Ég tel að það verði að hafa hugfast að breytingar geta haft keðjuverkandi áhrif. Einstök ákvæði stjórnarskrár haldast í hendur, bæði við önnur ákvæði hennar sem og almenn lög, og þess vegna þarf að hugsa allar breytingar til enda.
Núgildandi stjórnarskrá byggir enn í mörgum atriðum á stjórnarskránni frá 1874, þ.e. á fyrstu stjórnarskrá Íslands - frá því að landið var hluti af konungsdæmi Danmerkur. Þó má benda á að árið 1995 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, þau aðlöguð að breyttum tímum og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Ég tel að það sé löngu tímabært að gera frekari breytingar á stjórnarskránni og aðlaga hana betur að íslensku samfélagi. Jafnframt því verði að sjá til þess að stjórnarskráin verði það skýr og gagnorð að hún verði ekki mistúlkuð og að í henni verði einungis kveðið á um grundvallaratriði. Það verður að hafa í huga að það er munur á því sem á heima í stjórnarskrá annars vegar og í almennum lögum hins vegar.
Að lokum vil ég benda á hversu mikilvægt það er að við bindum stjórnarskránna ekki við tíðarandann í dag. Stjórnarskráin þarf að eiga við jafnt nú sem eftir 100 ár. Þess vegna má hún ekki vera of ítarleg. Við verðum að hugsa lengra.
Frekari upplýsingar um framboðið og stefnumál mín má finna á síðunni:
http://www.facebook.com/#!/profile.php?id=100001819370615.
Auðkennisnúmer mitt í kosningunum er 9882.
Gunnar Þór Gunnarsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.