Mikið kuldaskot í byrjun desember

Dagana  5. - 7. desember gekk yfir landið stutt kuldakast með miklum kulda. Á Norðurlandi vestra náði kuldinn sér vel á strik í hægum eða engum vindi og björtu veðri. Tvö atriði koma á óvart í þessu kuldakasti, annað hve snemma það er á vetrinum og hitt hversu kalt það er. Samkvæmt langtíma mælingum er að jafnaði kaldasti tími ársins frá 20. desember til 20. febrúar. Staðreynd er líka að á undanförnum árum hefur ísköldum dögum að vetrarlagi fækkað þó vissulega komi þeir enn af og til og jafnvel snemma að vetri. Skemmst er sennilega að minnast kuldakastsins sem byrjaði um mánaðarmótin nóvember/desember 2011. Meðalhiti sólarhringsins mældist þá lægri en -5 gráður (veðurathuganir á Bergstöðum) í 11 daga í röð (30.11-10.12 2011) sem er mjög sjaldgæft á láglendi nálægt sjó.

Kuldakastið núna 6. desember var til allrar hamingju stutt en því mun kaldara enda féllu ótal lágmarkshitamet desembermánaðar. Í töflunni koma fram mælingar á láglendisveðurstöðvum á Norðurlandi vestra þar sem hiti hefur mælst lægri en -22 gráður (+/- 0.2 gráður) frá 1950. Af þeim veðurstöðvum sem koma fram á listanum er Nautabú eina stöðin sem starfað hefur allan tímann. Sumar aðrar stöðvar hafa einungis starfað fáein ár eins og sjálfvirku stöðvarnar á Gauksmýri og Sauðárkróksflugvelli. Athuga verður að sjálfvirku stöðvarnar, sem eru með lægstu gildin núna, eru mjög næmar á hitabreytingar enda staðsettar þar sem kuldapollar geta myndast við réttar aðstæður. Mæling á Gauksmýri er aðeins 0.1 gráðu frá lægsta mælda gildi síðastliðin 60 ár á Norðurlandi vestra. Bergstaðir og Nautabú komast aftur á móti ekki á -22 gráðu listann 6. des 2013. Nokkuð erfitt er því að staðsetja nýafstaðið kuldakast í einhverja röð en það er örugglega eitt það harðasta svona snemma vetrar. Sama hvar kuldakastið lendir í röðinni þá fer það í flokkinn; of kalt til að gera eitthvað af viti utandyra.

  • Dagsetning          Veðurstöð
  • 28.12 1961           Barkarstaðir -22.4
  • 03.01 1968           Nautabú -22.0
  • 01.04 1968           Nautabú -22.0, Hólar -21.8
  • 31.01 1969           Barkarstaðir -22.0
  • 07.02 1969           Barkarstaðir -23.0
  • 06-10.03 1969     Barkarstaðir -24.5,  Hjaltabakki -24.3, Sauðárkrókur -21.9,  Hólar -22.0
  • 08-09.01 1970     Barkarstaðir -23.2,  Nautabú -22.5,  Sauðárkrókur -24.5
  • 30.01 1971           Barkarstaðir -23.0
  • 19.12 1977           Barkarstaðir -22.0,  Nautabú -22.0, Sauðárkrókur -22.6
  • 15.01 1981           Barkarstaðir -23.0
  • 06-07.03 1998     Nautabú -23.5,  Bergstaðir -22.1,  Dalsmynni -22.3
  • 06.12 2013           Gauksmýri -24.4,  Sauðárkróksflugvöllur -23.9

Veðurstöðvar á láglendi þar sem lágmarkshitamet desember féllu 5.-6. desember 2013: Gauksmýri -24.4 (ársmet), Blönduós vegagerðarstöð -18.4, Skagatá -14.0, Sauðárkróksflugvöllur -23,9 (ársmet), Bergstaðir -20.1, Stafá -14.1 (ársmet), Siglufjarðarvegur -10.8 (ársmet)

Heimildir: Veðurstofa Íslands. Barkarstaðir í Miðfirði (1944-2002), Gauksmýri í Línakradal (2006-2013), Hjaltabakki á Ásum (1967-81), Skagatá á Skaga (1996-2013), Nautabú í Neðribyggð (1949-2013), Bergstaðir í Borgarsveit (1978-2013),  Sauðárkrókur (1954-78), Sauðárkróksflugvöllur (2007-2013), Hólar í Hjaltadal (1955-90), Dalsmynni í Viðvíkursveit (1991-2011), Stafá í Sléttuhlíð (2012-13), Siglufjarðarvegur í Almenningum (1995-2013)

Hjalti Þórðarson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir