Maríudagar á Hvoli

Helgina 14.-15. júlí  2012 var merkur viðburður á Hvoli í Vesturhópi er afkomendur þeirra Maríu og Jósefs heiðruðu minningu þeirra með sýningu á listaverkum Maríu og ýmsum hlutum frá búskap þeirra sem þau stunduðu í áratugi. Þar bar að líta skilvindur, strokk, handsnúna þvottavél, aktygi og kafarabúning sem Jósef notaði er hann veiddi undir ís í Vesturhópsvatni.

Eigendur Hvols höfðu fyrir nokkrum árum tekið vel til hendinni við að tæma og lagfæra skemmu og gamlan bragga sem var notaður sem hlaða og voru orðin að fyrirtaks salarkynnum til sýninga og samkomuhalds ýmiss konar.

Fjöldi fólks streymi að Hvoli þessa daga, en á sunnudeginum var farin hópreið hestamanna þaðan að hinum fræga kirkjustað, Breiðabólstað, þar sem ritun hófst á Íslandi árið 1117 fyrir tilstuðlan Hafliða höfðinga Mássonar, lögsögumanns.

Margt manna var við guðsþjónustu hjá sr. Magnúsi Magnússyni, sem einnig er hestamaður góður og að athöfn lokinni var riðið , ekið og gengið aftur að Hvoli þar sem fjölskyldan og sóknarnefnd Breiðabólstaðarkirkju buðu upp á messukaffi, heimabakað góðgæti margs konar ásamt kaffi og kakói.

Slíkt var einnig í boði á laugardeginum, en í aðalsýningarsalnum var nóg rými fyrir dúkuð borð og stóla þannig að vel fór um alla.

Listaverk Maríu Hjaltadóttur voru í öndvegi, falleg landslagsmálverk og myndir unnar með“ monoprint“aðferð og margt fleira. Við innganginn blasti við stórt verk sem María hafði unnið ásamt nemendum sínum er hún kenndi verk-og listgreinar við Vesturhópsskóla á níunda áratugnum. Hún hafði málað bakgrunninn, fjöll, bæi og vatn, en börnin höfðu unnið fjöruborðið með ýmiss konar sjávardýrum og gróðri. Verk sem vert er að varðveita sem er og gert í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga.

Börn þeirra hjóna eru flest handverks-og listamenn og má nefna :Oddnýju sem er listaútskurðarkona á tré og á afar falleg verk eins og hillu með útskorinni brík, fugla og gestabækur, Kristínu er málar myndir og sker út úr tré ásamt ýmsu öðru, Grétu sem á veggmyndir úr leir, en hún er þekkt leirlistakona og rekur verkstæði af miklum dugnaði og listfengi. Hin eru einnig hagleiksfólk, en alls komust átta börn þeirra upp. Barnabörn þeirra Maríu og Jósefs áttu þarna falleg verk, s.s. teikningar(m.a. af Maríu í upphlut) töskur úr hjólbörðum, nytjahluti með listrænu yfirbragði úr lopa  að ógleymdri ljóðabók en lengi mætti telja. Það má því segja að það hafi ekki einungis verið María sem var listakona, heldur virðist sem flestir afkomendanna hafi fengið þetta listfengi í arf.

Þarna var einnig ánægjulegt að hitta gamla sveitunga og vini, njóta samvistanna yfir kaffibolla og ljúfmeti, börnin hlupu frjáls um innan dyra sem utan þar sem hestar og fleiri dýr fönguðu athygli þeirra, en veður var ljómandi gott.

Þetta framtak afkomenda hjónanna frá Hvoli, Maríu Hjaltadóttur og Jósefs Magnússonar, er góð fyrirmynd og sýnir óumdeilt kærleiksríkan hug þeirra allra til elskaðra foreldra, afa og ömmu og langafa og langömmu. Með þessari sýningu hefur alþýðumenningu í Húnaþingi vestra verið lyft upp og fólki boðið að kynnast þessari hagleiksfjölskyldu, enda komu tæplega þrjú hundruð gestir að Hvoli í Vesturhópi þessa sólríku júlídaga 2012.

Gjört á Prestbakka 27. júlí 2012

Kristín Árnadóttir

HÉR er hægt að sjá myndasyrpu frá Maríudögum sem Anna Scheving tók.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir