Lækkar lurkakyndingin húshitunarkostnaðinn?

Það liggur fyrir að ekki eru uppi áform um að lækka húshitunar og rafmagnskostnað á hinum svo kölluðu köldu svæðum. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ítrekaði það nú í gær  6. júlí, í Ríkisútvarpinu. Tilefnið var að Samtök sveitarfélaga hafa með réttu vakið athygli á því hversu mjög hefur hallað á ógæfuhliðina upp á síðkastið. Húshitunarkostnaður fer vaxandi oglætur nú æ meira fyrir sér finna í buddum fólksins sem býr á þeim svæðum þar sem orkukostnaður er hæstur.

Vakin hefur verið athygli á því að raforkuverð til almennings hafi hækkað um fjórðung – 25% - í fyrra. Gætum að til samanburðar að  allt varð vitlaust í umræðunni þegar fram kom að Orkuveita Reykjavíkur þyrfti á einhverjum árum að hækka taxta sína um 37% ef engar hagræðingar eða aðhaldsaðgerðir yrðu hjá fyrirtækinu til að mæta erfiðum skuldum þess.

Orkukostnaður hefur hækkað mest í dreifbýlinu

Sérstaklega er sárt að sjá hversu orkukostnaður hefur aukist í dreifbýlinu. Þar hafa hækkanirnar orðið hlutfallslega meiri en þær hafa þó verið í þéttbýlinu. Þetta er ein ástæða þess að orkukostnaður garðyrkjubænda hefur til dæmis  vaxið svona mikið og valdið miklum kostnaðarauka í þeirri búgrein.  Upplýsingar um þessa verðþróun sérstaklega komu  fram á sínum tíma í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn minni  á Alþingi og lesa má á þessari slóð: (http://www.althingi.is/altext/137/08/l12155158.sgml)

Í þessu svari kemur til dæmis fram að orkukostnaður í dreifbýli jókst um 38,7% á árunum 2005 – 2009, en í þéttbýli um 15,8%. Ljóst er að síðan þessar tölur birtust hefur ástandið versnað enn.

Spýtur og lurkar redda málunum !

Í umræðunum á þessum tíma vísaði ráðherrann mjög til sérstaks átaks sem gripið var til í tengslum við niðurskurð þorskaflaheimilda til þess að  stuðla að jarðhitaleit.  En nú er það ævintýri úti. Í  tillögu að nýrri byggðaáætlun sem sami ráðherra lagði fram og mælti fyrir sl. vor er frekari jarðhitaleit slegin út af borðinu.  Sjá slóðina: http://www.althingi.is/altext/138/s/0910.html

Þess í stað er boðið upp á tvennt. Annars vegar að varmadæluvæða heimilin á hinum svo kölluðu köldu svæðum.  Hins vegar eru íbúar hvattir til viðarkyndingar; kynda hús sín með spýtum og lurkum! – Og til þess að taka af öll tvímæli, þá er þetta ekkert grín. Þetta  stendur í tillögu til byggðaáætlunar, á blaðsíðu 15 í aðgerðaráætlun númer 19. Og þessi tillaga er í boði þingmanna stjórnarflokkana sem gáfu þessari snilldarhugmynd sitt græna ljós í þingflokkum sínum.

Einu sinni hefðu menn reiðst svona tillögum...

Eftir stendur þá þetta. Húshitunar og orkukostnaður víða á landsbyggðinni hefur hækkað mikið og er talið að enn eigum við eftir að sjá frekari hækkanir. Stjórnvöld ætla ekkert að aðhafast til þess að lækka kostnaðinn með beinum hætti. Úr sögunni er líka öll frekari jarðhitaleit á þessum svæðum, þannig að útséð er um að hitaveitur muni lækka húshitunarkostnaðinn á þessum svæðum. Hið eina sem við höfum fast í hendi er hvatning ríkisstjórnarinnar til íbúa þessara svæða, t.d á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi um að koma sér upp kamínum og lurkaofnum. Í því felast tækifærin samkvæmt tillögu að byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Einhverjum verður kannski á að hlægja að svona vitleysu. En þetta er ekki fyndið. Einu sinni hefðu menn reiðst svona ósvífni. En merkilegt nokk, þetta bjargræði ríkisstjórnarinnar í húshitunarmálum landsbyggðarinnar hefur litla athygli vakið. Kannski vegna þess að mönnum finnst þetta of ósvífið til að bregðast við því.

 

Einar Kristinn  Guðfinnsson, alþingismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir