Kraftmikla konu til forystu
Síðustu daga hefur þjóðin vaknað til vitundar um bága stöðu kennarastéttarinnar. Framhaldsskólakennarar hafa beint sjónum fólks að lélegum kjörum stéttarinnar. Allflestir eru sammála um að efla þurfi menntakerfið og bæta kjör kennara.
Kennarar hafa sjálfir á umliðnum misserum vaknað til vitundar um bága stöðu sína og ákveðinnar óánægju hefur gætt með forystu Kennarasambands Íslands. Sitjandi formaður, Þórður Hjaltested, fékk einungis 43 prósent greiddra atkvæði til embættis formanns á dögunum. Nærri fimmtán prósent skiluðu auðu, það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir forystu Kennarasambandsins.
Nú er komið að því að kjósa varaformann félagsins. Sitjandi varaformaður, Björg Bjarnadóttir, hefur fengið mótframboð. Aldrei áður í sögu Kennarasambandsins hafa sitjandi formaður eða varaformaður þurft að leggja störf sín í dóm félagsmanna.
Ég er einn þeirra sem tel að rödd æðstu stjórnenda Kennarasambandsins hafi verið máttlítil síðasta kjörtímabil. Laun kennara eru órækur vitnisburður þar um enda hefur dregið verulega á með þeim og viðmiðunarstéttunum úr hópi opinberra starfsmanna.
Kennarar búa engu að síður yfir miklum mannauði. Í hópi þeirra má finna kraftmikið fólk. Nú ber svo við að Aðalheiður Steingrímsdóttir býður sig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands. Hún hefur lengi unnið að málefnum kennara og þekkir því betur en flestir aðrir hvað á stéttinni brennur.
Aðalheiður hefur síðustu daga rofið þögnina ásamt félögum sínum í Félagi framhaldsskólakennara og beint sjónum fólks að bágum kjörum íslenskra kennara. Við þurfum kraftmikið fólk í forystusveitina. Fólk sem hefur kraft og einurð í sér til að tala máli stéttarinnar. Ég tel að forysta Kennarasambandsins hafi verið undir hálfgerðum huliðshjálmi undanfarin þrjú ár. Við þurfum að vera sýnileg og stolt af því fólki sem velst til forystu. Ég vil breytingar og þess vegna kýs ég Aðalheiði Steingrímsdóttur sem varaformann Kennarasambands Íslands.
Guðjón Ragnar Jónasson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.