Kjósandi góður
Ágæti kjósandi! Á laugardaginn velur þú fólk til vinnu í sveitarstjórninni þinni. Til sveitarfélagsins greiðir þú gjöldin þín, af laununum þínum, af húsinu þínu og fyrir heita vatnið sem er ein af þeim gjöfum sem þetta fallega hérað gefur okkur.
Þetta eru ekki litlir peningar, sem fara í sameiginlegan sjóð og það er eðlilegt að þú viljir vita í hvaða verkefni flokkarnir ætla að fara með þetta fé.
Sjálfstæðisflokkurinn í Skagafirði hefur lagt fram stefnumál sín í sveitarstjórnarmálum næstu fjögur árin og þú tekur afstöðu til þess sem fram er borið. Við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vonum að þú treystir okkur til góðra verka.
Við höfum hlustað eftir ábendingum kjósenda og skoðanakönnun okkar sýnir að mikill meirihluti vill fjölga íbúum sveitarfélagsins, fjölga ferðamönnum í héraðinu, efla atvinnulífið, ná tökum á fjármálum sveitarfélagsins og að stækkun Árskóla sé mikilvæg.
Þetta eru allt mikilvæg mál sem þarf að vinna að, ásamt ýmsu öðru. Forsenda þess að hér sé gott að búa er fjölbreytt atvinnulíf og blómlegt mannlíf.
Í þeim þrengingum sem nú ganga yfir þurfum við að standa vörð um alla starfsemi innan sveitarfélagsins, skólana, íþróttafélögin, æskulýðsstarf og allar stofnanir. Framtíð okkar byggist á því að hér vaxi upp einstaklingar sem hafi möguleika á að eflast og dafna í góðu umhverfi.
Við viljum að í Skagafirði sé eftirsóknarvert fyrir alla, yngri sem eldri að búa. Allt frá því að ala upp börn í að verða aldraður og eiga sitt ævikvöld hér með tryggri aðstöðu til tómstunda og félagslífs.
Hér í þessu fallega héraði er hægt að vinna að mörgum skemmtilegum og aðkallandi verkefnum. en fyrsta verkefnið er að koma böndum á rekstur Sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn býður fram lista fyrir þessar kosningar, með góðum vinnufúsum höndum.
Kjósandi góður, á laugardag hefur þú eitt atkvæði til ráðstöfunar. Þú velur þér fulltrúa í sveitarstjórn og ábyrgð þín er mikil gagnvart sjálfum þér, þínum nánustu og samfélaginu. Vandaðu því val þitt, en mundu að öll verðum við að vinna saman.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.