Grjótkast úr glerkastala Björns Vals Gíslasonar

Gagnrýni Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG og skipstjóra í leyfi á Alþingi frá Brim hf.  á skipun Runólfs Ágústssonar í starf umboðsmanns skuldara er eftirtektarverð í meira lagi. Skipun Runólfs væri hluti af gamla valdatímanum, sem Björn Valur sagðist ekki vilja tilheyra.
Björn Valur er skipstjóri í leyfi frá Brim hf., og hefur þegið laun sem slíkur eftir að hann tók sæti á Alþingi. Hver gæti til dæmis gleymt því að Björn Valur skrapp á sjóinn hjá Brim hf. í miðri Icesave deilu Alþingismanna?


Þann 28. júlí síðastliðinn sagði Björn Valur í viðtali við fjölmiðla að hann væri þreyttur á þingmennsku og íhugaði að snúa aftur til sjós, þ.e. til starfa hjá Brim hf. eftir árs frí. Þar bíður hans skipstjórastaða er hann snýr til baka úr störfum sínum á Alþingi. Í ljósi ummæla hans um vinnubrögð hins gamla valdatíma þá hljóta spurningar að vakna hjá almenningi um hagsmunatengsl Björns Vals og LÍÚ-stórveldisins Brims hf.
Er það hluti af nýjum vinnubrögðum hins nýja valdatíma VG að skipa í nefnd aðila sem hefur beina og sameiginlega fjárhagslega hagsmuni ásamt sínum vinnuveitenda við endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu?

Björn Valur hefur þegið í það minnsta 2,5 milljónir króna í laun frá Brim hf.  síðan hann tók sæti á Alþingi. Hvernig má það vera að starfsmaður Brims hf. sé skipaður í nefnd sem fjallar um endurskoðun fiskveiðistjórnkerfisins og þar af leiðandi um gífurlega fjárhagslega hagsmuni Brims hf., þaðan sem Björn er í leyfi á meðan hann sinnir þingstörfum? Myndi Björn Valur fórna skipstjórastöðu sinni hjá Brim með því að standa við kosningaloforð VG um innköllun kvótans gegn vilja Brims?
Eru það ásættanleg og góð vinnubrögð að skipa slíkan augljósan hagsmunaaðila undir fölskum forsendum í mikilvæga nefnd sem fjalla á um mannréttindi, samkeppnisumhverfi og að leita leiða til sátta um fiskveiðistjórnunarkerfið? Svarið er einfalt og svarið er nei.
Þessi vinnubrögð hefðu líklega þótt boðleg á hinum gamla valdatíma sem Björn Valur vill þó alls ekki tilheyra. Þau eru ekki boðleg því Björn Valur er vanhæfur sem varaformaður og nefndarmaður í starfshópi sem endurskoðar fiskveiðistjórnunarkerfið. Hann hefur ríkra fjárhagslegra hagsmuna að gæta sem starfsmaður Brims hf. og er í raun umboðslaus af hálfu VG í nefndinni þar sem hann hefur sjálfur sagt í fjölmiðlum að hann geti ekki stutt áform um innköllun kvótans og endurúthlutun á grundvelli jafnræðissjónarmiða, það verði fara aðrar leiðir þegar kemur að endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins.

Þar með segir Björn Valur að hann geti ekki fylgt eftir stefnu flokks síns í sjávarútvegsmálum og sínum eigin loforðum frá því fyrir kosningar. Hann fylgir aftur á móti stefnu og hagsmunum vinnuveitanda síns Brims hf. með sóma, enda fór hann inn í nefndina á forsendum VG en ákvað í miðri á að skipta um hest og þjóna hagsmunum LÍÚ og vinnuveitanda síns Brims hf. enda liggja fjárhagslegir hagsmunir hans og Brims hf. saman.
Björn Valur á að sjá sóma sinn í að segja af sér sem varaformaður endurskoðunarnefndar um stjórnun fiskveiða og víkja um leið sem nefndarmaður. Samhliða því ætti Björn Valur að íhuga alvarlega stöðu sína sem þingmaður. Nauðsynlegt er að byggja upp traust almennings á Alþingi og stjórnkerfinu í heild eftir efnahagshrunið. Skipun Björns Vals í umrædda nefnd er ekki til þess fallin að byggja upp traust, þvert á móti þá liggur af henni svo megn óþefur að jafnvel þeir dauðu myndu grípa fyrir vit sér. Það blasir við. Björn Valur vill ekki sjá þær aðferðir sem einkenna gamla valdatímann, nema þá auðvitað að hann stundi þær sjálfur. Björn Valur ætti að varast að kasta grjóthnullungum úr glerhúsi sínu.

Þórður Már Jónsson, lögfræðingur og varaþingmaður Samfylkingarinnar
Finnbogi Vikar, fulltrúi Hreyfingarinnar í endurskoðunarnefnd um stjórnun fiskveiða

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir