Fyrsta fótmál
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sagði ég í ræðu, að ég gleddist yfir því að Lísa væri ekki ein í Undralandi, því Stefán Vagn væri þar greinilega einnig. Tilefni þessara orða var túlkun oddvita framsóknarmanna á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins, sem var algerlega úr takti við raunveruleikann. Nú hefur Stefáni Vagni og meðreiðarsveini hans hins vegar tekist að draga alla Skagfirðinga með sér til Undralands, því atburðarásin við ráðningu nýs sveitarstjóra getur vart átt sér stað í Mannheimum, þvílík eru endemin.
Nýjasta töfrabragð þeirra félaga birtist á Feykir.is í gær, þar sem kom fram að öllum umsóknum um auglýst starf sveitarsjóra hafi verið hafnað. Hvað nú ?
Það kemur ef til vill spánskt fyrir sjónir að ég skuli vitna til upplýsinga úr fréttamiðli í þessu samhengi. Sannleikurinn er hins vegar sá, að við sem skipum minnihluta í sveitarstjórn höfum engar upplýsingar fengið frá oddvitum meirihlutans um hið stórbrotna ráðningaferli sveitarstjóra. Fyrirspurnum okkar í minnihlutanum um ráðningu nýs sveitarstjóra hefur ávallt verið svarað á þann veg, að málið sé í „öruggum farvegi“. Svari nú hver fyrir sig.
Í ljósi þessara vinnubragða og ráðaleysis, er hins vegar grafalvarlegt til þess að hugsa, að önnur og veigameiri mál bíða úrlausnar. Ekki hefur enn tekist að koma á dagskrá þessarar sveitarstjórnar umræðu um fjármál sveitarfélagsins, þrátt fyrir síendurteknar óskir minnihlutans og augljóst brýna þörf á að hefja markvissa vinnu í þeim efnum tafarlaust. Svar þeirra Undralandsmanna hefur verið á þá leið, að ekki sé fært að hefja þá vinnu nema í samvinnu við nýjan sveitarstjóra !!.
Kæru Skagfirðingar, það vekur ugg að hinn nýskipaði meirihluti sveitarstjórnar okkar skuli hefja störf sín með þeim hætti, sem við höfum verið vitni að við ráðningu í starf sveitarstjóra. Það verkefni að ráða starfsmann til verkstjórnar er í eðli sínu einfalt mál, ef ekki búa annarleg sjónarmið að baki. Ef að núverandi meirihluti Framsóknar og VG ætlar að takast á við komandi verkefni með handarbökum og vandræðagangi, er hann ekki á vetur setjandi. Fyrsta fótmál lofar ekki góðu.
Jón Magnússon, sveitarstjórnarfulltrúi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.