Fasteignagjöld á Sauðárkróki 2024
Þriðjudaginn 13. febrúar sl. birtist grein á Feykir.is undir nafninu ,,Álagningarseðill fasteigna". Einhver umræða um þennan álagningarseðil virðist hafa átt sér stað og í ljósi þess telur formaður byggðaráðs Einar E. Einarsson sig þurfa að gera nánari grein fyrir þessum lið í rekstri Sveitarfélagsins.
Mörgum þykir þessi þáttur í rekstri Sveitarfélagsins vera farinn að keyra úr hófi fram og kemur þessi kostnaður trúlega verst fyrir þá sem komnir eru á aldur og langar að vera áfram í sínu húsi og innan um sitt dót þó það sé ef til vill vel rúmt. Trúlega kemur þetta verst niður á fólki sem er eitt eftir og hefur ekki nema einfaldan ellilífeyrir til þess að lifa af. Þá þykir þessi skattur ósanngjarn þar sem þegar hefur verið greiddur skattur af því fé sem fór í þessar fasteignir. Við lestur greinarinnar þar sem hinum ýmsu rekstrarþáttum eru gerð góð skil kemur margt í ljós, svo sem sorphirðugjald. Þar stendur að gjald fyrir hvert heimili sé 98.500 kr. á ári og á það jafnt um okkur gamlingjana jafnvel þó það sé bara ein manneskja í heimili, eins og Ingólfur hérna við hliðina á mér segir, ,,það eina sem fer í tunnuna er kaffikorgurinn". Mér er kunnugt eftir átta ára setu í umhverfis- og samgöngunefnd að samkvæmt lögum verður sorphirða að vera sjálfbær. En mér leikur hugur á því hvernig það mátti vera að í kosningum um það hvort að sækja ætti sorp á hvert heimili í dreifbýli fengu aðeins þeir sem búa í dreifbýli að kjósa en við sem búum í þéttbýli fengum ekki að kjósa þótt það sé umtalsverður kostnaður sem því fylgir og við verðum að taka þátt í. Þá erum við, ofan á allan tunnufjöldann, látin taka þátt í rekstri grenndar- og söfnunarstöðva.
Svo til þess að enda pistilinn á jákvæðan hátt getur hann þess að fasteignaverð hérna á Sauðárkróki hafi hækkað meira en meðaltalshækkun á Íslandi og telur það líka forsendu þess að hérna vilji fólk byggja sér þak yfir höfuðið og búa. ,,Góðan daginn”. Hvers hagur er það að fasteignaverð hérna hækki umfram meðaltal á Íslandi (eða hækki yfir höfuð). Ekki er það hagur okkar húseigenda hérna á Sauðárkróki því fasteignagjöldin hérna hljóta að hækka samsvarandi umfram landsmeðaltal og voru þó þokkaleg fyrir. Ekki er það hagur þeirra sem vilja flytja til Sauðárkróks að þeir kaupi dýrara. Ekki er það hagur þeirra sem skipta vilja um húsnæði að þeir selji og kaupi dýrara. Bestur er hagur sveitarfélagsins og þeirra sem eru að selja húsnæði sitt og flytja í burtu.
Að lokum langar mig að koma með lítið sýnishorn af mismun á því sem við á Sauðárkróki og Reykjavík þurfa að borga í fasteignagjöld. Íbúð í Reykjavík: stærð 85,3m2, fasteignamat 58.550.000 m.kr. Fasteignagjöld (allur pakkinn) kr. 24.000 x 10 = 240.000 kr. á ári. Íbúð á Sauðárkróki: stærð 76,4m2, fasteignamat 33.650.00 m. kr. Fasteignagjöld kr. 38.599 x 10 = 385.954 kr. á ári.
Sauðárkrókur, febrúar 2024. Steinar Skarphéðinsson
Greinin var birt í 8.tölublaði Feykis.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.