Eldhúsið heima ekki lengur eitrað
Þau eru stór viðfangsefnin sem Íslendingar glíma við um þessar mundir. Það er hinsvegar alvarleg þróun þegar markvisst er unnið að því að gera algjör smámál að stórmálum. Þetta gerðist á Akureyri í sumar þegar, af heilbrigðisástæðum, átti að stöðva kökubasarinn „Mömmur og muffins“. Í augum heilbrigðisyfirvalda var ástæðan mjög alvarleg, baksturinn fór ekki fram í löggiltu matvælaframleiðslueldhúsi. Þessi niðurstaða heilbrigðisyfirvalda olli mikilli fjölmiðlaumfjöllun enda vita Íslendingar að lítil hætta stafar af heimabökuðu muffins, jólakökum, hjónabandsælum eða pönnukökum með rjóma.
Lagaleg rök heilbrigðisyfirvalda er að finna í lögum um matvælaframleiðslu en þar er matvælafyrirtæki skilgreint sem fyrirtæki sem framleiðir, vinnur eða dreifir matvælum hvort heldur í ágóðaskyni eða ekki. Nánar er síðan kveðið á um skilgreiningar í reglugerð þar sem segir að slíkur atvinnurekstur megi ekki fara fram í íbúðarhúsnæði. Ég held að engum hafi dottið í hug á sínum tíma að íslenskur eftirlitsiðnaður yrði svo smásmugulegur að hægt væri að túlka lögin með þessum hætti. Það er einnig vaxandi áhyggjuefni að samfélag okkar skuli vera að þróast í þá átt það sem maður skyldi ætla að væri sjálfsagt mál verður að stórum lagaflækjum.
Þetta er engu að síður staðreynd og þá er mikilvægt að bregðast við og girða fyrir þennan heimatilbúna vanda. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram lagafrumvarp til breytingar á þessum lögum. Í frumvarpinu er lagt til að veitt verði heimild til leyfisveitinga til sölu matvæla sem ekki eru bökuð í sérstökum eftirlitsskyldum eldhúsum. Til að unnt sé að veita undanþáguna verður skilyrt að framleiðslan sé vegna góðgerðastarfsemi, til að styrkja félagastarf eða í öðrum sambærilegum tilgangi. Dæmi um atburði væru kökubasarar og sala matvæla sem tengjast sérstökum viðburði, svo sem bæjarhátíð. Nái frumvarpið fram að ganga geta kvenfélög, skátar, íþróttafélög og aðrir þeir sem valdið hafa þessari „samfélagslegu“ hættu hafist handa við baksturinn.
Ásmundur Einar Daðason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.