Einstakt sögulegt tækifæri

Góð tækifæri ganga mönnum stundum úr greipum fyrir sakir mistaka og yfirsjóna. En svo breytast aðstæður og enn á ný blasa tækifærin við; ef menn svo reyna að grípa þau. Þetta er staðan sem ríkisstjórnin er komin í. Hún glutraði niður sögulegu tækifæri til þess að skapa mikla almenna samstöðu um ný fiskveiðistjórnarlög. Skapa sátt, eins og skrifað var í texta mikils meirihluta endurskoðunarnefndarinnar, svo sem allir vita sem þau mál hafa kynnt sér. Svo klúðraði hún tækifærinu. Nú er það enn á ný að koma upp. Hér getur ríkisstjórnin því slegið sér upp og skapað sátt um skynsamlega fiskveiðistjórnun í anda þeirra tillagna sem svokölluð endurskoðunarnefnd/ sáttanefnd lagði til.

Rifjum aðeins upp söguna.
Endurskoðunarnefndin svo kallað skilaði skýrum tillögum fyrir ári síðan, í breiðri og mikilli sátt. Þá tók hins vegar við sérkennileg atburðarrás. Sex manna þingmannanefnd var sett til verksins. Þar voru skoðanir skiptar og sýnilegt að markmiðið var ekki að leggja vinnu sáttanefndarinnar til grundvallar. Ekki batnaði ástandið þegar fjórir ráðherrar bættust í hópinn. Þá fyrst var vitleysan orðin kórónuð.

Daga langa og mánuðum saman sátu tíumenningarnir og strituðu við að berja saman tillögur. Heildaryfirsýn var horfin, vinna endurskoðunarnefndarinnar gleymd og skæklatogið var í algleymingi. Loks tók fjallið og það fæddist lítil mús; frumvarp til nýrra fiskveiðistjórnarlaga.

Fiskveiðistjórnarfrumvarpinu var slátrað í sláturtíðinni !
Hina dapurlegu sögu sem þá tók við þekkja allir. Hver sá sem málið kynnti sér felldi áfellisdóm yfir frumvarpinu. Það var ekki eitt, heldur eiginlega allt. Til voru þeir sem reyndu í upphafi að leggjast í vörn fyrir hinn vonda málstað, en af miklum vanmætti. Í lok sumars var öllum orðið ljóst að þetta frumvarp yrði ekki á vetur setjandi. Það var orðið slögtunarhæft.

Sú málsmeðferð var ákveðin að við sem í sjávarútvegs og landbúnaðarnefnd Alþingis sátum sendum frá okkur álit til sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. Það var gert þegar liðið var á ágústmánuð. Einmitt þegar sláturtíðin stóð yfir. Það var táknrænt og vel viðeigandi. Allir þeir þingmenn sem sendu frá sér álit gagnrýndu frumvarpið. Um það mátti nú segja eins og fræg sögupersóna Halldórs Laxness er látin segja: „Nú á minn herra öngvan vin“.

Fiskveiðistjórnarfrumvarpinu var sem sé slátrað í sláturtíðinni!

Það er þess vegna ljóst að málið er komið á þann sama reit og það stóð á þegar endurskoðunarnefndin/sáttanefndin hafði skilað áliti sínu. Vinna þeirrar nefndar stendur enn fyrir sínu. Og ljóst er að sú mikla vinna sem umsagnaraðilar lögðu í málið eftir að frumvarpið var komið fram, svo ekki sé talað um mat sérfræðingahópsins sem ráðherra hafði kvatt til ,er gríðarlega gott vegarnesti inn í frekari vinnu.

Sögulegt tækifæri
Af þessu leiðir að ríkisstjórnin er nú enn á ný komin með upp í hendurnar sögulegt tækifæri til sáttagerðar um hið margslungna fiskveiðistjórnarmál. Tækifærið sem hafði runnið úr greipum hennar sl. vetur er nú á borði hennar að nýju.

Það er afar rík ástæða til þess að hvetja nú ríkisstjórnina til þess að grípa þetta tækifæri. Missa það ekki út úr höndum sér. Við blasir að frumvarp ríkisstjórnarinnar getur ekki orðið neinn grundvöllur áframhaldandi vinnu. Hið lánlausa frumvarp hljóta menn að leggja til hliða og horfa bara til þess sem eins konar sögulegrar æfingar, sem menn reyna núna að læra af með jákvæðum formerkjum.

Nú hefur það síðan gerst að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður VG hefur talað digurbarkalega um að létt verk sé að ljúka endurskoðun fiskveiðistefnunnar á fáeinum vikum í góðri sátt. Vísar hann þar til niðurstöðu endurskoðunar/sáttanefndarinnar. Þetta veit á gott. Sjálfur var ráðherrann virkur þátttakandi í feigðarleiðinni sem frumvarp ríkisstjórnarinnar boðaði. Nú er greinilega runnið upp fyrir ráðherranum ljós. Þá er bara að breyta hinum bröttu orðum ráðherrans í efndir. Hyggja að sáttaleiðinni sem við boðuðum í sáttanefndinni, kasta burtu því sem bersýnilega mistókst og ljúka vinnunni.

Fljótgert að smíða nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp
Í raun er það orðið tiltölulega fljótgert að smíða nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp. Vinna endurskoðunarnefndarinnar stendur fyrir sínu og fer ekki frá okkur. Frumvarpið sem lagt var fram getur verið eins konar víti sem þarf að varast. Umsagnir sérfræðinga, hagsmunaaðila og annarra þeirra sem sögðu álit sitt á frumvarpinu geta þjónað drjúgum tilgangi, enda eru þar reiddar fram miklar upplýsingar og gagnlegar ábendingar. Allt rímar þær umsagnir prýðilega saman við þá niðurstöðu sem við nær tveir tugir manna, fulltrúar þingflokka, sveitarfélaga, hagsmunaaðila í sjávarútvegi, verkalýðshreyfingin  og aðrir höfðum komist að niðurstöðu um, eftir vinnu sem stóð yfir í án annað ár.

Ríkisstjórnin hlýtur að grípa möguleikann núna
Ríkisstjórnin sem nú situr hefur ekki af mörgu að státa þegar kemur að vel heppnuðu samráði. Hér á hún hins vegar alveg einstaka möguleika til þess að leiða til lykta mikið deiluefni og setja fram breytingar á gildandi lögum. Nú er til staðar sögulegt tækifæri til lagasetningar sem sættir sjónarmið og styrkir rekstrarlegar forsendur sjávarútvegsins, sem mun færa aukin verðmæti inn í þjóðarbúið og skapa eigendum auðlindarinnar ríkari arð af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar.

Vonlaust  er annað en að ríkisstjórnin nýti sér þettasögulega tækifæri. Þetta er staða sem ríkisstjórnin getur nýtt sér sjálfri til framdráttar. Hitt er þó vitaskuld enn þá þýðingarmeira að þetta er  tækifæri til þess að fylkja saman ólíkum öflum, fólki með ólíkar skoðanirer tilbúið til þess að ná saman og gera skynsamlegar breytingar. Þetta tækifæri má ríkisstjórnin ekki undir neinum kringumstæðum láta sér úr greipum ganga. Það gengur auðvitað ekki að þeir sem öfgafyllstir eru og halda fram einstrengingslegustu sjónarmiðunum, í blóra við vilja atvinnugreinina sjálfa, ráði áfram för. Yfir slík sérhagsmunasjónarmið hljóta stjórnvöld - sem vilja láta taka sig alvarlega - að hefja sig.

Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir