Aldraðir
Félag eldri borgara hefur lengi unnið að bættum kjörum skjólstæðinga sinna, en gjarnan verið daufheyrt. Í stað þess að sinna þeirri eðlilegu mannréttindakröfu, að hinir eldri fái að njóta áhyggjulauss ævikvölds, þá hefur hið opinbera skirrst við að sinna lögbundnum skyldum sínum og reyndar gengið svo langt að skerða kjör þeirra umfram aðra. Það er eins og stjórnmálamenn, sem ákveða kjörin, ætli sér ekki að verða gamlir sjálfir.
Eðlilegt líf
Það er ýmislegt gott hægt að gera til þess að bæta líf þessa fólks utan beinna launakjara. Þar má nefna að heimilis og hjúkrunaraðstoð verði í boði fyrir alla þá, sem vilja búa í eigin húsnæði. Að dagvistunar, skammtíma og hvíldarúrræðum sem og hjúkrunarrýmum verði fjölgað til þess að mæta þörf. Að settir verði gæðastaðlar um alla þjónustu við aldraða og eftirlit með henni verði aukið og bætt. Að búsetuúrræði verði sem fjölbreyttust og að dvalarheimili verði endurbætt til þess að gera þau vistlegri og heimilislegri, en höfundi finnst þau gjarnan vera of spítalaleg. Mér finnst t.d. að mötuneyti og matsalir eigi að hverfa frá hinum ósjarmerandi verksmiðjustíl fæðustaða og gera þetta líkara huggulegum veitingahúsum, eins og undirritaður hefur séð erlendis. Allt þetta til þess að umgangast fólkið með þeirri virðingu og tillitssemi, sem það á skilið, en ekki eins og hjörð eða annars flokks borgara.
Eðlileg kjör
Það er augljóst að bæta þarf kjör eldri borgara. Að mínu viti þá þarf ekki bara að bæta þeim beinar launaskerðingar, sem þeir hafa mátt þola undanfarin ár velferðarstjórnarinnar, heldur finnst mér að helst eigi að hækka launin umfram það að vera lágmarks framfærslukjör til þess að verða sæmileg og mannsæmandi svo fólkið megi vera sjálfstætt, en ekki háð eða fái það á tilfinninguna að um einhvers konar ölumsu sé að ræða og missi við það sjálfstraustið og lífshamingjuna. Þeir, sem njóta eiga, hafa alla sína ævi greitt til samfélagsins og samfélagið verður að muna og virða það. Þá verður að afnema allar tekjutengdar skerðingar TR svo ekki sé talað um hinn illræmda auðlegðar eða eignaupptökuskattinn. Það er afar ódrengilegt og óskynsamlegt að hegna þeim, sem hafa sparað í gegn um lífið með þátttöku í lífeyrissjóði eða annarri ráðdeild. Á sama tíma er það óþolandi að skerða greiðslur frá TR vegna dugnaðs fólks eða sjálfsbjargarviðleitni þess ef það vill og getur unnið sér inn aukatekjur, þótt það sé farið að reskjast. Að síðustu verður að hækka skattleysismörkin verulega. Og við skulum hafa í huga að þeir, sem eldri eru, eru líka þeir sem reyndari eru og í mörgum tilfellum besti vinnukrafturinn, sem þjóðfélagið á og sem það þarf á að halda. Þeir borga líka áfram sín gjöld eins og aðrir svo ástvinum skattheimtu ætti að falla það í geð.
Réttlætismál
Ég fjalla um þetta vegna þess að mér finnst þetta vera réttlætismál. Ég geri mér fulla grein fyrir að þetta kostar og að e.t.v. þarf að ná þessum markmiðum í einhverjum tíma. Plássið leyfir ekki að fara út í það hér, en ég hef í öðrum blaðagreinum fjallað um hvernig mætti fjármagna þetta. Hugsum með þakklæti til gamla fólksins og um það eins og það gerði um okkur, sem yngri erum. Hugsum um fólkið af kærleik og skilningi, en ekki um einhver misvitur tilbúin kerfi. Ríkið á að þjóna fólkinu, en ekki fólkið ríkinu.
Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er fyrrv. forstjóri og stuðningsmaður XG Hægri grænna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.