Ágætu Skagfirðingar
AÐSENT - Ásta Ólöf Jónsdóttir, áhugamanneskja um velferð fatlaðra skrifar
Þið sem eitthvað þekkið til mín vitið eflaust að mér eru málefni fatlaðra svolítið hugleikin, ekki síst aðgengismál. Ég hef svo sem reynt það á eigin skinni hvað lítið þrep getur verið mikil hindrun fyrir manneskju með göngugrind sem á erfitt með að lyfta fótunum. Í mörgum tilfellum er svo einfalt að sleppa tröppum og hafa þetta bara hallandi. Vissulega höfum við unnið mikið í því að bæta aðgengi og erum enn að. Ég vitna stundum í hana Önnu Pálínu Þórðardóttur þegar rætt er um málefni fatlaðra. Hún komst ekki á bókasafnið fyrr en um sjötugt þegar farið var að bera hana á milli hæða. Mikið sem hún var glöð þegar lyftan kom í Safnahúsið. Hún var fædd árið 1935 og á þeim tíma áttu fatlaðir einstaklingar helst ekki að vera sýnilegir. Síðan þá hefur sem betur fer margt breyst.
Í Skagafirði er rekin margvísleg þjónusta við fatlaða einstaklinga. Má þar m.a. nefna búsetuþjónustu, liðveislu, stuðningsfjölskyldur, Iðju og Skammtímadvöl fyrir fötluð börn. Búsetuþjónusta gerir fötluðum kleyft að stofna sitt eigið heimili. Iðja hæfing er vinnustaður þar sem fólk með fötlun vinnur að fjölbreyttum verkefnum og markmið skammtímadvalar er að létta álagi af fjölskyldum fatlaðra barna svo þau geti búið í heimahúsum. Þá er henni jafnframt ætlað að veita fötluðum ungmennum og fullorðnum, sem búa í heimahúsum, tilbreytingu og búa þá undir að flytja að heiman og stofna eigið heimili. Það er sem betur fer liðin tíð að fólk þurfi að upplifa aðra eins höfnun og Anna Þórðar þurfti að gera í sínum uppvexti. m.a. að fá ekki að fara í skóla.
En þó margt sé vel gert má lengi bæta við. Við sem byggjum þetta samfélag getum líka lagt okkar af mörkum. Við þurfum ekki alltaf að bíða eftir að ríki og sveitarfélög geri allt. Við getum gert eitt og annað sjálf til að létta fólki í kringum okkur lífið.
Þá er nú komið að aðalmarkmiðinu með þessu greinarkorni mínu. Ég fæ stundum skrítnar hugmyndir og það sem meira er ég framkvæmi þær oft líka. Eitt af því sem ég held að við getum gert til að létta fötluðum lífið er að festa kaup á hjóli með hjólastólarampi. Það er þannig útbúið að hægt er að festa hjólastól framan á það og hjóla svo með viðkomandi um allar trissur.
Haldið þið ekki að það væri skemmtileg upplifun fyrir þessa einstaklinga sem gætu nýtt sér svona hjól og starfsfólkið líka? Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um hjólið geta skoðað það á slóðinni https://mobility.is/products/veloplushjolastolahjol
Mig langar því að hrinda af stað söfnun fyrir svona hjóli. Ég hef rætt þetta við Guðrúnu Hönnu Kristjánsdóttur, forstöðumann Skammtímadvalar, og mun hún aðstoða mig við að velja og panta hjól sem hentar. Hjólið kostar tæpar tvær milljónir króna og hef ég stofnað reikning í Landsbankanum á Sauðárkróki og fengið Birgi Rafnsson, útibússtjóra, til að hafa umsjón með honum og passa að ég eyði því, sem inn á hann kemur, ekki í neina vitleysu.
Margt smátt gerir eitt stórt og því biðla ég til einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja að leggja mér lið. Ef allt gengur vel kemst hjólið vonandi í gagnið í sumar. Skipaður yrði umsjónarmaður með hjólinu sem sæi um að vel væri um það hugsað. Ég sé fyrir mér að Guðrún Hanna yrði fyrst í því embætti. Það er kannski full mikil bjartsýni að reikna með að hjólið verði klárt fyrir 17. júní en ef svo skemmtilega vildi til þá heiti ég því hér með að vígja það sjálf íklædd íslenskum þjóðbúningi og vonandi með einhverjum kjörkuðum einstaklingi sem þyrði að vera framaná í hjólastólnum sínum.
Bankareikningurinn er 0123-15- 146495 kt. 011160-4929.
Með kærri kveðju og von um góðar undirtektir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.