Afnám verðtryggingarinnar enn og aftur

Sumir álíta að afnám verðtryggingarinnar á húsnæðis og neyslulánum almennings muni m.a. valda gjaldþroti Íbúðarlánasjóðs og lífeyrissjóðanna og segja því, að ekki megi hrófla við henni. Lausn XG-Hægri grænna, flokks fólksins,  hefur hins vegar þá miklu og ótvíræðu kosti að allir högnuðust, fólkið og lánardrottnarnir samhliða. Vegna þess hve mörgum virðist það erfitt að skilja hvernig þetta muni virka, þá ætla ég að endurtaka útskýringar á þessari lausn í sem stystu máli.

Markaðslausnin

Bandaríkjamenn fóru þessa leið til að leysa skuldamál heimilanna og vanda íbúðarlánasjóða þar í landi, þannig að aðferðin er prófuð og þrautreynd og náði þeim árangri, sem að var stefnt. Hér er því ekki verið að reyna að finna upp hjólið á ný, né er um galdra að ræða. Bandaríkjamenn komu á fót kerfi, sem þeir nefndu TARP. Ef við heimfærum það upp á Ísland, þá mundi eftirfarandi eiga sér stað: Sett yrðu tafarlaust á neyðarlög þar sem verðtryggð húsnæðis og neyslulán yrðu færð í 278,1 stig, sem var vísitala neysluverðs til verðtryggingar þann 1. nóvember, 2007, þegar MiFID  tilskipun EES var lögleidd í íslenskan rétt. Þessi aðgerð mundi þýða um 45% lækkun höfuðstóls lánanna ef þetta yrði gert núna. Þau lán, sem tekin voru eftir þann tíma, yrðu svo færð til þeirrar vísitölu, sem að gilti þegar lánin voru tekin. Samhliða yrði stofnaður Afskriftarsjóður sem innkallaði og keypti öll þessi verðtryggðu skuldabréf og skuldbreytti þeim. Afskriftarsjóðurinn yrði í vörslu Seðlabankans, sem greiddi lánardrottnunum út gömlu skuldabréfin, sem að fengju þá strax allt sitt að fullu. Síðan yrði lántökum boðin ný leiðrétt óverðtryggð skuldabréf til langs tíma allt að 75 ára á 7-8% föstum vöxtum. Afskriftarsjóðurinn innheimti svo nýju bréfin, en samkvæmt útreikningum tekur það sjóðinn aðeins um 9 ár að ná jafnvægi og fara í hagnað með þessum vöxtum og vaxtamuninum, en Seðlabankinn lánaði sjóðnum á 0,01% vöxtum. Þetta er markaðslausn, sem þýðir að ríkissjóður þarf ekki að leggja neitt fé fram.

Magnbundin íhlutun

Þetta er magnbundin íhlutun og er stjórntæki, sem seðlabankar nota til þess að auka peningamagn í umferð. Með magnbundinni íhlutun getur Seðlabanki Íslands þannig sett í gang aðgerð um uppkaup á sértækum fjármálaafurðum frá bönkum og lánastofnunum eins og t.d. verðtryggðum skuldabréfum heimilanna. Þessi aðferð var notuð af Seðlabanka Bandaríkjanna eftir hrunið 2008 til þess að laga efnahagslífið og bjargaði þessi aðgerð báðum stóru húsnæðislánasjóðum Bandaríkjanna. Magnbundin íhlutun er lykillinn að lausn á skuldavanda heimilanna og þeirra, sem eru með vísitölutengd neytendalán og á sama tíma vanda lánardrottnanna vegna þeirra. Til þess að koma í veg fyrir verðbólgu, sem af þessu kynni að hljótast, er hægt að geyma féð að hluta eða öllu leiti í Seðlabankanum og mylgra því út til lánardrottnanna eftir ástæðum. En snaran færi af fólkinu. Það er auðvitað fyrir mestu.

Raunsætt og gengur upp

Þetta er lausn á mjög stórum og sársaukafullum vanda, sem þegar hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir svo marga. Eins og áður sagði, að þá er engin betri lausn til en sú, sem gengur upp fyrir alla. Ég vona að fólk sé nú nokkru nær um þessa einu leið, sem fær er, en annars má fara inn á xg.is

Kjartan Örn Kjartansson
Höfundur er fyrrv. forstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir