Af hverju segi ég NEI í ICESAVE kosningunni?

Eftirfarandi er skoðun mín á Icesave lögunum:

1.        Með Icesave lögunum er verið að lögfesta ríkisábyrgð á bankastofnun sem spilaði rassinn úr buxunum. Slíkt er brot á reglum um Evrópska efnahagssvæðið! Ég segi NEI!

2.        Með Icesave lögunum tökum við á okkur skuldbindingar sem engan veginn er séð fyrir endann á  enda eru óvissuþættir samningsins mjög margir, svo sem gengisþróun krónunnar og virði þrotabús Landsbankans. Ég segi NEI!

3.        Með Icesave lögunum samþykkjum við háar vaxtagreiðslur í erlendum gjaldmiðli. Það hlýtur að leiða til lækkunar á gengi krónunnar og þar með enn hækkandi greiðsluskyldu. Þannig getur skapast vítahringur. Afnám gjaldeyrishafta við slíkar aðstæður er ólíklegt. Ég segi NEI!

4.        Með Icesave lögunum ljúkum við ekki málinu og kjósum Icesave í burtu. Við hefjum þá fyrst margra ára afborganasögu með tilheyrandi vaxtakostnaði sem almenningur þarf að borga. Við samþykkjum þá fyrst að Icesave sé okkar skuld. Ég segi NEI!

5.        Með Icesave lögunum göngumst við undir greiðsluskyldu sem hlýtur að leiða til harkalegs niðurskurðar í heilbrigðis og fræðslumálum þjóðarinnar og enn frekari skattpíningar. Þar hefur nú þegar verið gengið allt of langt. Ég segi NEI!

Flestir eru sammála um að það hvíli ekki lagaleg skylda á íslenska ríkinu að ábyrgjast Icesave reikninga Landsbankans. Engum hefur tekist að sannfæra mig um að samþykkja slíka lögleysu án þess að fá úr því skorið með dómi. Því hefur verið haldið fram að Bretar og Hollendingar muni beita okkur einhvers konar viðskiptaþvingunum, en þeir hafa ekki lagastoð fyrir slíku og þá hlytu Íslendingar að kæra þá fyrir ólöglegar viðskiptaþvinganir. Er þjóðin búin að gleyma að Bretar settu Íslendinga á lista yfir hryðjuverkasamtök, sem olli okkur miklum skaða?

Ég óttast ekki um réttarstöðu okkar.
Það er stigsmunur á íslenskri ríkisábyrgð á íslenskum innistæðum, og á erlendum innistæðum. Tryggingarféð sem notað var til að greiða út íslenskar innistæður er sótt í vasa íslenskra skattborgara og því ekki verið að gefa þeim neitt. Nú hefur verið skorið úr um að innistæður eru forgangskröfur í þrotabú Landsbankans, og því er réttur Breta og Hollendinga hvergi brotinn.

Ég trúi því ekki að lánshæfismat ríkisins muni batna við það að samþykkja Icesave lögin. Hvernig getur aukin skuldsetning ríkisins bætt lánshæfismatið?

Ég trúi því ekki að niðurstaða dómsmáls yrði verri en samningurinn sem ég ætla að segja NEI við á laugardaginn. Þess fyrir utan efa ég að málið fari fyrir dóm. Ríkin sem eiga aðild að málinu telja að málarekstur um lagaleg atriði Icesave muni grafa undan trausti á fjármálakerfi Evrópuríkja.
Sagt er að ef við segjum NEI við Icesave muni það tefja fyrir inngöngu í Evrópusambandið – Þeim rökum get ég verið sammála, en mér finnst það bara allt í lagi.

Icesave er ekki okkar skuld, og ekki barnanna okkar! Ég get ekki samþykkt að almenningur, skólakrakkar, ég og þú, eigum að bera ábyrgð á útrásarsukki elítunnar. Ég ætla að segja NEI við Icesave!
Örvar Marteinsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir