Af hverju að segja já?
Systkinin Áhættuhegðun og Ábyrgðarleysi eru þjóðarmein.
Það voru einmitt Áhættuhegðun og Ábyrgðarleysi sem reyndust helstu orsakavaldar fjármálahrunsins eins og frægt er orðið. Síðan hafa þau verið illa þokkuð og hrakyrt í skýrslum og ræðum.
En ... þau lifa góðu lífi í íslensku samfélagi, og hafa aftur sótt í sig veðrið.
Fari svo að þjóðin segi nei við Icesave-samningnum sem nú hefur öðru sinni verið lagður á borð hennar, þá hefur áhættusóknin enn á ný náð undirtökum í samfélagi okkar. Þar með höfum við hafnað því að binda endi á óvissuástand með heiðarlegum samningi um málalyktir, en tekið þess í stað ófyrirgefanlega áhættu um afturför og frekari þrengingar í atvinnu- og efnahagslífi.
Þeir sem hæst hafa hrópað Nei við Icesave bera því við að þjóðin eigi "ekki að borga skuldir óreiðumanna" eins og það er orðað. Að réttast sé að láta reyna á "dómstólaleiðina", því þetta sé ekki "sanngjarnt".
Stöldrum fyrst við sanngirnina.
Hvað myndi okkur finnast um það ef bresk/hollenskur banki með útibú á Íslandi hefði fallið, en bresk/hollensk stjórnvöld þá ákveðið að bæta sínum eigin landsmönnum allar innistæður upp í topp, en undanskilja íslenska viðskiptavini þessa sama banka? Ef þau hefðu einfaldlega neitað að bæta einum hópi viðskiptavina það sem öðrum var bætt að fullu? Hrædd er ég um að heyrst hefði hljóð úr horni. Alþjóðasamfélagið hefði að sjálfsögðu gripið inn í og þvingað þarlend stjórnvöld til þess að standa við skuldbindingar sínar gagnvart öllum viðskiptavinum viðkomandi banka - og ef ekki, að semja þá um ásættanlega lausn málsins. Þetta var nokkurn veginn það sem gerðist í Icesave – en með öfugri hlutverkaskipan.
Íslensk stjórnvöld hafa nú í tvígang náð að semja sig frá því að bæta breskum og hollenskum innistæðueigendum til fulls þeirra tap. Við höfum náð samningi um það að standa einungis við ákveðna upphæð (20 þús evrur á hvern reikning) jafnvel þó að íslenskir innistæðueigendur bankans hafi fengið allt sitt. Bretar og Hollendingar taka á sig það sem á vantar. Þeir hafa sýnt þann samningsvilja að leyfa okkur að standa við þessa skuldbindingu á tilteknu árabili með afar sanngjörnum vöxtum. Landsbankinn mun sjálfur standa skil á skuldinni að langstærstum hluta með eignasafni sínu. Íslenska ríkið ábyrgist síðan það sem út af stendur, en það er óverulegur hluti af heildarupphæðinni.
Hvað þá með að borga skuldir óreiðumanna? Að segja nei við samningnum á þeirri forsendu er eiginlega öfugmæli. Icesave-málið mun ekki hverfa þó að þjóðin hafni samningnum. Þá fyrst færi nú að versna í því.
Með því að hafna samningnum eigum við tvennt yfir höfði okkar:
a) að öll upphæðin falli á okkur með dómsúrskurði - ekki bara lágmarksupphæðin – eða
b) að við sleppum með að greiða lágmarksupphæðina (samningsupphæðina), þó líklega með mun hærri vöxtum, enda verðum við þá ekki lengur í neinni samningsstöðu. Dagar samninganna eru nefnilega taldir í þessu máli.
Hvort tveggja setur okkur í mun verri stöðu en þá sem nú er. Fari allt á versta veg – og það getum við alls ekki útilokað - þá verður það íslenskur almenningur sem án miskunnar fær að greiða skuldir óreiðumanna í formi efnahagsþrenginga og stöðnunar í atvinnulífi sem óhjákvæmilega mun hljótast af versnandi lánshæfismati og þar með minnkandi fjárstreymi, sem aftur mun leiða til minni hagvaxtar og versnandi lífskjara.
Þess vegna vil ég segja Já. Ekki vegna þess að mig langi til þess að „borga skuldir óreiðumanna“ ; ekki vegna þess að ég sé sátt við verk þeirra eða þann ófögnuð sem þau hafa leitt yfir landið. Ó, nei. Heldur vegna þess að ég vil að Landsbankinn og Tryggingasjóður innistæðueigenda standi sjálfir skil á þessari skuld, þannig að sem minnstur kostnaður af þessu máli falli á íslenskan almenning.
Það er þjóðinni til hagsbóta að semja um þetta eins og siðaðri þjóð sæmir, og hafa þar með um það að segja hvar og hvernig skuldaskilin verða.
Ólína Þorvarðardóttir
Höfundur er alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.