Að eignast óðal
Það var fyrir mörgum árum. Ég sat aftur í bíl þeirra afa míns og ömmu á leið gegnum Vatnsdalinn fram í Kárdalstungu.
„Langar þig að eignast bóndabæ nafni,“ sagði afi minn allt í einu.
„Ha, jújú,“ sagði ég.
„Þú getur það ef þig langar,“ sagði hann. „Þú gætir orðið óðalsbóndi hér á Hofi þegar þú stækkar.“
(En í þeim orðum töluðum brölti bíllinn einmitt upp brekkuna hjá Hofi.)
„Þú verður bara að ákveða hvað það er sem þig langar, og svo verðurðu að vinna í því að láta það rætast. Ekki gefast upp. Þú getur það sem þig langar ef þú vinnur í því.“
„Já,“ sagði ég. Og leiddi ekki meira að því hugann í langan tíma.
Það er orðið dálítið síðan ég gerði mér ljóst að það er pottur brotinn í því hvernig við högum stjórninni á landinu okkar. Framkvæmdaarmur ríkisvaldsins hefur samkvæmt hefðinni völd og áhrif þar sem efast má um að sé góð hugmynd að hann hafi þau. Ráðherrar og ráðuneyti sjá að stórum hluta um setningu löggjafar. Dómsmálaráðherra með þingmeirihluta er nánast í sjálfsvald sett hvernig hann skipar dómara í Hæstarétt. Það sem átti að vera þingræði er í raun ráðherraræði. Og eftir flokkshöfðunum dansa limirnir.
Þessu vil ég sjá breytt. Með hverjum þeim tiltækum ráðum sem góð teljast. Þess vegna býð ég mig fram til stjórnlagaþings.
Það þarf ekki að snúa stjórnskipan landsins á annan endann til að ná þessu fram: Það er nóg af bjargráðum. Það er hægt að taka fyrir setu ráðherra á alþingi. Herða reglur um kjörgengi til embættis forseta Íslands þannig að útiloki alþingismenn, ráðherra og dómara, auk þess að fela hluta þess valds sem ríkisstjórn hefur umboð til frá honum í dag aftur í hendur honum sjálfum. Færa frumkvæði til löggjafar frá ráðuneytum og ráðherrum til alþingis og þingnefnda. Svo nokkuð sé nefnt.
Þetta er það sem ég vil helst sjá gerast (þeim sem vilja fræðast um önnur stefnumál mín er bent á blogg mitt og fasbókarsíðu). Leiðirnar eru margar, og kannski ekki allar færar í einu. En málið snýst heldur ekki um það hvaða leiðir nákvæmlega á að fara, heldur hver áfangastaðurinn er.
Það verður kosið á laugardaginn. Stjórnlagaþing þarf traust umboð frá stórum hluta þjóðarinnar til að skrifa nýja stjórnarskrá. Ef það er það sem þú vilt, þá verðurðu að vinna í því. Kjóstu. Hverja þá sem þér líst best á. Það er einfaldara en margir vilja vera láta:
Að kjósa til stjórnlagaþings er þónokkuð létt.
Þú þarft bara lista af snillingum, þjörkum og vinum.
Og síðan er gott að sjá til að þetta sé rétt:
Þú setur þann besta efst, og raðar svo hinum.
Hjörvar Pétursson (3502)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.