Vinnusmiðja í tengslum við Tæknibrú
Í fréttatilkynningu frá 1238: Baráttan um Ísland segir að þann 18. apríl síðastliðinn var haldin vinnusmiðja á Sauðárkróki í tengslum við verkefnið Tæknibrú sem styrkt var af Sprotasjóði og unnið hefur verið að í allan vetur. Tæknibrú er samstarfsverkefni allra grunnskóla á Norðurlandi vestra, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, FabLab smiðjunnar og Sýndarveruleika ehf, sem á og rekur sýninguna 1238 á Sauðárkróki.
Fram kemur að markmið verkefnisins sé að gera tækni aðgengilegri fyrir nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarlegar bakgrunn og þannig stuðla að því með beinum hætti að auka tækniþekkingu þeirra og varpa ljósi á möguleika í tækni- og iðnnámi. Í vetur hafa allir grunnskólar á Norðurlandi vestra verið heimsótttir í það minnsta tvisvar, bæði til að funda með stjórnendum og kennurum og til kynningar fyrir nemendur.
Nú í vikunni var svo haldin vinnusmiðja á Sauðárkróki þar sem þátttakendur kynntust fjölbreyttum notkunarmöguleikum sýndarveruleikatækni í húsakynnum 1238 í Aðalgötu og síðan var farið í FabLab í Fjölbrautaskólanum þar sem nemendur lærðu á laser, kynntust grunnatriðum forritunar og fóru í skoðunarferð um verknámshúsið undir leiðsögn nemenda.
Verkefnastjórar Tæknibrúar eru þær Karítas, kennari við FNV og forstöðumaður FabLab, og Freyja Rut hjá Sýndarveruleika.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.